Viðureign Íslendinga og Ísraelsmanna í undankeppni EM 2022 í karlaflokki sem fram átti að fara hér á landi í byrjun nóvember, en ekkert varð af, hefur nú verið sett á helgina 13. og 14. mars á næsta ári.
Handknattleikssamband Evrópu, EHF, ákvað þetta í morgun. Í tilkynningu frá Handknattleikssambandi Íslands er ákvörðun EHF fagnað og um leið vonað að með hækkandi sól verði hægt að hafa áhorfendur á leiknum.
Óvíst er hvort hægt verði að leika í Laugardalhöll. Gólf Hallarinnar skemmdist á dögunum þegar hitavatnslögn gaf sig. Róbert Geir Gíslason, framkvæmdastjóri HSÍ, sagði við handbolta.is á dögunum að sótt yrði um undanþágu hjá EHF til að leika landsleiki í öðru íþróttahúsi meðan Laugardalshöll verður úr leik.
Næstu leikir karlalandsliðsins verða 6. og 10. janúar gegn Portúgal. Sá síðari verður hér á landi. Báðar viðureignir eru liður í undankeppni EM 2022 sem fram fer í Ungverjalandi og Slóvakíu.