„Ítalir eru mjög snúinn andstæðingur. Þeir eru mikil ólíkindatól og með skemmtilegt lið sem gaman er að horfa á,“ segir Snorri Steinn Guðjónsson landsliðsþjálfari í handknattleik spurður um fyrsta andstæðing íslenska landsliðsins í riðlakeppni EM, Ítalíu. Leikið verður gegn þeim á morgun í Kristianstad Arena og verður flautað til leiks klukkan 17.
Aðeins óþægilegt
„Þeir eru öðruvísi, um margt ólíkir öðru. Þar af leiðandi eru viðfangsefni okkar um margt önnur en gegn flestum andstæðingum. Þegar leikið er gegn liðum sem leika aðeins öðruvísi en önnur þá er það óþægilegt. Um leið er efiðara að æfa sig gegn þeim og búa sig undir leikinn. Við höfum farið mjög vel yfir það sem við höfum séð af ítalska liðinu.
Hins vegar eru Ítalir með þannig lið og þjálfara að þeir geta teflt fram einhverju í leiknum gegn okkur sem við höfum alls ekki séð áður. Við verðum að vera búnir undir hið óvænta,“ segir Snorri Steinn sem ásamt aðstoðarmönnum sínum hefur legið yfir upptöku af síðustu leikjum ítalska landsliðsins.
Verðum að hafa allt okkar á þurru
„Við verðum fyrst og fremst að vera með allt okkar á þurru þegar að leiknum kemur. Ef við náðum fram svipuðum leik og í seinni viðureigninni við Þjóðverja í nóvember og klitti í í leikjunum í París síðastliðna helgi, þá held ég að við verðum í góðri stöðu,“ segir Snorri Steinn og ítrekar að fyrsti leikur á stórmóti sé alltaf hættulegur, hver sem andstæðingurinn er.
Hafa minna að tapa
„Ítalir hafa minna að tapa en við. Það er tilfinning sem allir glíma við í upphafi stórmóts. Við erum hins vegar með reynslumikið lið sem á að geta mætt þeim aðstæðum sem koma upp,“ segir Snorri Steinn Guðjónsson landsliðsþjálfari í viðtali við handbolta.is.




