- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Ítalir verða með á HM – Spánverjar og Slóvenar sluppu fyrir horn

Leikmenn spænska landsliðsins hlaupa til markvarðarins Rodrigo Corrales eftir að hann varði síðasta skot Serba í leiknum í Novi Sad í dag. Ljósmynd/EPA
- Auglýsing -

Ítalir verða á meðal þátttakenda á heimsmeistaramótinu í handknattleik karla í upphafi næsta árs í annað sinn í sögunni. Þá verða 28 ár liðin síðan ítalska landsliðið tók þátt í HM karla í fyrsta og eina skiptið til þessa. Ítalska landsliðið hafnaði í 16. sæti af 24 þátttökuliðum á HM 1997 í Kumamoto.

Eftir sex marka sigur á Svartfellingum í Conversano á fimmtudagskvöldið þá kom ítalska landsliðið á óvart í dag með því að fylgja sigrinum eftir í Podgorica í Svartfjallalandi og vinna öðru sinni, 34:32. Tapið er mikið áfall fyrir Svartfellinga sem töldu sig vera komna inn á rétta braut með landsliðið undir stjórn Vldao Sola.


Ítalir voru hvergi bangnir í dag. Þeir náðu tökum á leiknum strax í upphafi og voru með fjögurra marka forskot í hálfleik, 17:13. Þeir stóðust öll áhlaup Svartfellinga í síðari hálfleik.
Simone Mengon og Umberto Bronzo skoruðu átta mörk hvor fyrir ítalska liðið. Luka Radovic skoraði sex mörk fyrir Svartfellinga.

Hollendingar sneru við taflinu

Hollendingum tókst að snúa við taflinu gegn Grikkjum eftir fjögurra marka tap í Aþenu á fimmtudaginn. Hollenska liðið vann með sex marka mun í Eindhoven í dag, 31:25. Hollendingar voru mikið sterkari frá byrjun til enda. Liðið lék af meiri festu en í fyrri leiknum og vann verðskuldaðan sigur í leik þar sem Grikkir voru aldrei líklegir til þess að fylgja eftir sigrinum á heimavelli. Rutger ten Velde var markahæstur í hollenska liðinu með sjö mörk.

Vítakeppni í Winterthur

Viðureign Sviss og Slóveníu varð æsilega spennandi og fengust ekki hreinar línur fyrr en eftir vítakeppni sem Slóvenar voru sterkari í og unnu 4:1. Sviss vann fyrri leikinn í Koper í Slóveníu með einu marki á dögunum. Slóvenum tókst að kreista út eins marks sigur í dag í Winterthur í Sviss, 34:33. Þar með var gripið til vítakeppni þar sem lánið var ekki með heimamönnum.

Corrales kom í veg fyrir vítakeppni

Spánverjum tókst að komast hjá vítakeppni gegn Serbum en litlu mátti muna. Eftir að hafa unnið með fjögurra marka mun á heimavelli, 32:28, þá áttu Spánverjar undir högg að sækja í dag í Novi Sad. Þeir lentu ítrekað fimm og sex mörkum undir, m.a. í síðari hálfleik. Með mikilli seiglu tókst þeim að minnka muninn í þrjú mörk skömmu fyrir leikslok, 25:22. Serbar áttu síðustu sóknina en lánaðist ekki að skora til þess að knýja fram vítakeppni. Rodrigo Corrales markvörður spænska landsliðsins varði skot frá Milos Kos á síðustu sekúndu.

Jordi Ribera landsliðsþjálfari Spánverja við hliðarlínuna í leiknum við Serba í Novi Sad í dag. Ljósmynd/EPA

Spænska landsliðið slapp fyrir horn sem e.t.v. var eins gott fyrir Jordi Ribera þjálfara sem mátti ekki við fleiri skakkaföllum eftir hafa fallið út eftir riðlakeppnina á EM í Þýskalandi í janúar.

Ekkert hik á Pólverjum

Pólverjar tryggðu sér farseðilinn á HM með átta marka sigri á Slóvökum í Topolcany í Slóvakíu, 33:25. Slóvakar stóðu vel að vígi fyrir leikinn eftir eins marks sigur í Gdansk í Póllandi en stóðust ekki álagið á heimavelli í dag.

Kalandadze og félagar úr leik

Austurríki vann Georgíu öðru sinni í umspilinu. Að þessu sinni með sex marka mun í Vínarborg, 37:31, og verða þar af leiðandi með á HM. Liðsmenn Tite Kalandadze tókst ekki að tryggja sér farseðilinn á annað stórmótið í röð.

Tékkar verða einnig með á HM 2025. Þeir lögðu Rúmena með níu marka mun í íþróttahúshreysinu í Brno, 29:20. Rúmenar unnu í Búkarest með eins marks mun, 31:30, en sáu aldrei til sólar í dag.

Línumaðurinn sterki Bence Banhidi að skora eitt marka sinna fyrir ungverska landsliðið gegn Litáen í Veszprém í dag. Ljósmynd/EPA

Öruggt hjá Ungverjum og Portúgal

Ungverjar unnu annan stórsigur á Litáum undir stjórn Gintaras Savukynas, 36:23, í Veszprém, og Portúgal gerði jafntefli við Bosníu, 26:26, í Tuzla í Bosníu. Heimamenn skoruðu þrjú síðustu mörkin í leiknum. Portúgal vann fyrri leikinn með 10 marka mun, 29:19, og hafði tögl og hagldir í viðureigninni í Tuzla.

Sjá einnig:

HM karla 2025 – leikdagar og leikstaðir

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -