Thomas Arnoldsen, leikmaður Aalborg Håndbold, hefur verið kallaður inn í landsliðshóp heimsmeistara Danmerkur fyrir síðustu leiki liðsins á Evrópumóti karla í Herning í Danmörku.
Arnoldsen kom til móts við danska hópinn í gær og æfði þá með liðinu. Danmörk, sem er þegar búin að tryggja sér sæti í undanúrslitum, mætir Noregi í lokaumferði milliriðils 1 klukkan 19:30 í kvöld.
Talið var fullvíst að Arnoldsen myndi missa af Evrópumótinu eins og það leggur sig vegna sköflungsbrots sem hann varð fyrir í nóvember síðastliðnum. Hefur hann hins vegar jafnað sig að fullu aðeins rúmum tveimur mánuðum eftir brotið.
Arnoldsen er 24 ára leikstjórnandi og vinstri skytta og kemur að óbreyttu inn í leikmannahópinn hjá Danmörku fyrir leikinn gegn Noregi í kvöld.


