Guðmundur Bragi Ástþórsson skoraði eitt mark úr vítakasti í kvöld þegar Bjerringbro/Silkeborg og Fredericia HK skildu jöfn, 33:33, í dönsku úrvalsdeildinni, í 24. og þriðju síðustu umferð, í Silkeborg í kvöld. Ekki var skoraði mark síðustu tvær og hálfu mínútu leiksins og m.a. brást leikmönnum Fredericia bogalistin úr hraðaupphlaupi á síðustu sekúndu.
Einar Þorsteinn Ólafsson skoraði ekki fyrir Fredericia HK í leiknum. Að vanda var Guðmundur Þórður Guðmundsson, þjálfari Ferdericia HK, við stjórnvölin á hliðarlínunni.
Fredericia er áfram í fimmta sæti deildarinnar með 30 stig. Bjerringbro/Silkeborg er næst á eftir með 28 stig.
Grindsted, sem er í næst neðsta sæti krækti í dýrmætt stig á heimavelli gegn Mors-Thy, 31:31. Mors-Thy er í þriðja sæti með 31 stig, nokkuð á eftir GOG og Aalborg Håndbold.
Elín Jóna varði sjö skot
Elín Jóna Þorsteinsdóttir var stóran hluta leiksins í marki Aarhus Håndbold þegar liðið tapaði á Falstri fyrir Nykøbing, 34:29. Elín Jóna varði sjö skot, 21,2%. Stalla Elínar Jónu, Sabine Englert varði tvö skot. Nykøbing er með öflugt lið um þessar mundir og var m.a. í riðlakeppni Meistaradeildar í vetur.

Aarhus Håndbold er í 12. sæti af 14 liðum fyrir lokaumferðina um næstu helgi þegar liðið tekur á móti toppliði Odense Håndbold. Arhus er með 12 stig og er tveimur stigum fyrir ofan EH Aalborg og Skanderborg Håndbold. Eitt lið fellur rakleitt úr deildinni.