Janus Daði Smárason og liðsfélagar í Pick Szeged unnu ungverska bikarinn í handknattleik karla í gær eftir nauman sigur á One Veszprém í úrslitaleik, 31:30. Þetta er í fyrsta sinn í sex ár sem Pick Szeged vinnur ungverska bikarinn en þess má geta að Stefán Rafn Sigurmannsson var liðsmaður Pick Szeged á þeim tíma.
Janus Daði skoraði tvö mörk fyrir Pick Szeged í úrslitaleiknum og var einu sinni vikið af leikvelli. Sigurinn í bikarkeppninni eru fyrstu verðlaun sem Selfyssingurinn vinnur með félaginu eftir að hann gekk til liðs við það síðasta sumar.
Mario Sostaric var markahæstur í liði bikarmeistaranna með níu mörk.
Bjarki Már fór á kostum
Bjarki Már Elísson fór á kostum í leiknum. Hann skoraði 11 mörk úr 12 skotum, þar á meðal síðasta mark leiksins. Fimm markanna skoraði Bjarki Már úr vítaköstum og var með fullkomnna nýtingu.
Aron Pálmarsson, sem tók þátt í sínum öðrum leik eftir fjarveru vegna meiðsla, náði sé ekki á strik. M.a. geigaði hann á fimm markskotum.
Leikmenn Pick Szeged voru með yfirhöndina nánast frá upphafi til enda. Þeir voru þremur mörkum yfir í hálfleik, 15:12, og náðu mest fimm marka forskoti í síðari hálfleik.