Línumaðurinn Jóel Bernburg hefur ákveðið að söðla um og ganga til liðs við Stjörnuna. Jóel hefur undanfarin ár leikið með Val og m.a. verið hluti af sigursælu liði félagsins en var talsvert frá keppni á síðustu leiktíð vegna meiðsla.
Jóel var lánaður til Gróttu haustið 2022 en var kallaður til baka um miðjan febrúar árið eftir þegar leikmenn Vals höfðu í mörg horn að líta.
„Jóel er spennandi leikmaður sem smellur vel inn í okkar leikmannahóp. Hann er í góðu líkamlegu formi og getur spilað báðu megin á vellinum,“ er haft eftir Hrannari Guðmundssyni þjálfara Stjörnunnar í tilkynningu félagsins.
Jóel er þriðji leikmaðurinn sem gengið hefur til liðs við Stjörnuna á skömmum tíma. Hinir eru Hans Jörgen Ólafsson og Sveinn Andri Sveinsson frá Selfossi.
Aðalsteinn Örn Aðalsteinsson, Hergeir Grímsson og Þórður Tandri Ágústsson, sem voru með Stjörnunni á síðasta keppnistímabili, hafa á hinn bóginn róið á ný mið auk Arnórs Freys Stefánssonar markvarðaþjálfara.
Karlar – helstu félagaskipti 2024
Konur – helstu félagaskipti 2024
Þjálfarar – helstu breytingar 2024