Jóhanna Margrét Sigurðardóttir úr HK var valin besti leikmaður Ragnarsmótsins í handknattleik sem lauk á Selfossi í kvöld með sigri HK-liðsins eins og getið er um í annarri frétt á handbolta.is.
Jóhanna Margrét sem einnig átti sæti í U19 ára landsliði Íslands sem tók þátt í EM í Norður Makedóníu í sumar fór á kostum í öllum þremur leikjum mótsins. Þverfagleg valnefnd á vegum Ragnarsmótsins var aldrei í vafa um hver hreppti hnossið.
Besti sóknarmaður mótsins var valin Tinna Sigurrós Traustadóttir úr liði Selfoss. Hún hélt uppteknum hætti frá EM U17 ára landsliða á dögunum og skoraði hvert markið á fætur öðru á Ragnarsmótinu með þrumufleygum auk þess að vera örugg á vítalínunni. Tinna Sigurrós skoraði 23 mörk í þremur leikjum.
Varnarmaður mótsins var valin Alexandra Líf Arnarsdóttir, HK, og stalla hennar Margrét Ýr Björnsdóttir skaraði fram úr öðrum markvörðum mótsins.