Jón Brynjar Björnsson hefur verið ráðinn þjálfari meistaraflokks kvenna hjá Aftureldingu til næstu tveggja ára. Félagið segir frá þessu í kvöld. Jón Brynjar tekur við af Guðmundi Pálssyni sem óskaði eftir að fá lausn frá störfum á dögunum eftir hálft fimmta ár í stóli þjálfara. Afturelding féll úr Olísdeildinni í vor eftir æsispennandi fimm leikja umspilseinvígi við Gróttu.
Var áður hjá Víkingi
Jón Brynjar var síðast þjálfari meistaraflokksliðs Víkings og hafði verið í tvö ár þegar leiðir Víkings og hans skildu í lok nýliðins keppnistímabils. Einnig hefur Jón Brynjar verið annar þjálfara U16 ára landsliðs kvenna með Díönu Guðjónsdóttur.
„Ég er mjög spenntur fyrir því að koma inn í svona spennandi starf hjá félagi sem hefur vaxið mikið undanfarin ár og hjálpa því að taka næstu skref. Aðstæður og umgjörð hjá félaginu eru algjörlega til fyrirmyndar og mér líst ótrúlega vel á liðið og hef mikla trú á að við getum gert góða hluti í vetur. Maður finnur fyrir miklum áhuga og metnaði hjá leikmannahópnum og ég hlakka til að byrja vinnuna á gólfinu,“ segir Jón Brynjar í tilkynningu Aftureldingar í kvöld.
Davíð Svansson formaður meistaraflokksráð kvenna hjá Aftureldingu er ekki síður ánægður með að hafa tryggt sér krafta Jóns Brynjars eftir brotthvarf Guðmundar Helga sem hafði unnið afar gott og óeigingjarnt starf.
„Við erum mjög ánægð með að hafa fengið Jón Brynjar til félagsins og teljum hann vera mikilvægt næsta skref fyrir liðið til að ná lengra. Hann er gífurlega metnaðarfullur þjálfari sem við teljum geta gert góða hluti með liðið,“ er haft eftir Davíð í tilkynningu handknattleiksdeildar Aftureldingar.
Þjálfarar – helstu breytingar 2024