Ungur íslenskur handknattleiksmaður, Jón Ísak Halldórsson, var í fyrsta sinn í leikmannahópi danska úrvalsdeildarliðsins TTH Holstebro í gær þegar liðið sótti heim nýliða Grindsted GIF og vann 30:27.
Jón Ísak er einn af efnilegri leikmönnum TTH Holstebro. Hann leikur sem vinstri skytta og miðjumaður og á sæti í U19 ára liði félagsins. Auk þess hefur hann æft með aðalliði Holstebro frá því að undirbúningur hófst fyrir þetta tímabil í sumar, að sögn Arnórs Atlasonar þjálfara TTH Holstebro.
Jón Ísak hefur búið í Danmörku í nokkur ár og er jafn gamall Bjarka Jóhannssyni sem skaut upp kollinum hjá meistaraliðinu Aalborg Håndbold á dögunum og handbolti.is sagði frá.
Faðir Jóns Ísaks, Halldór Arnarson, er frá Akureyri eftir því sem næst verður komist. Halldór er forstjóri Jeka Fish sem er eitt stærsta fyrirtæki í framleiðslu og sölu á fiski í Danmörku. Bækistöðvarnar eru í Lemvig á Jótlandi, ekki langt frá Holstebro.
Móðir Jóns Ísaks, Ingibjörg Bjarnadóttir, er frá Vestmanneyjum og gegnum móður sína tengist Jón Ísak mörgu fræknu íþróttafólki frá Vestmannaeyjum, m.a. Arnóri, Elliða Snæ, Ívari Bessa Viðarssonum, Örnu Sif Pálsdóttur, systkinunum Andra, Elmari og Söndru Erlingsbörnum, systkinunum Elísu, Margréti Láru og Bjarna Geir Viðarsbörnum, Tryggva Guðmundssyni, Erlingi Richardssyni og Richard Sæþóri Sigurðssyni svo aðeins nokkurra sé getið.