- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Jónatan ekki gerð frekari refsing – mál Sigurðar tekið fyrir í næstu viku

Jónatan Þór Magnússon verður mættur til leiks með KA gegn Stjörnunni á morgun eftir leikbann í síðasta leik. Mynd/Egill Bjarni Friðjónsson
- Auglýsing -

Jónatan Þór Magnússon má stýra karlaliði KA annað kvöld þegar liðið sækir Stjörnuna heim í 18. umferð Olísdeildar karla í handknattleik. Honum verður ekki gerð frekari refsing vegna ummæla í viðtali eftir viðureign KA og Aftureldingar miðvikudagskvöldið 15. febrúar. Framkvæmdastjóri HSÍ sendi aganefnd erindi vegna ummælanna daginn eftir leikinn.


Jónatan Þór var úrskurðaður í eins leiks bann á fundi aganefndar í síðustu viku á grundvelli skýrslu frá dómurum leiksins. Í gær afgreiddi aganefnd erindi frá framkvæmdastjóra HSÍ og sagði ekki vera ástæðu til þess að gera Jónatan Þór frekari refsingu vegna málsins.


„Með úrskurði aganefndar þann 21. febrúar 2023 var þjálfarinn úrskurðaður í eins leiks bann vegna grófrar ódrengilegrar hegðunar, sem meðal annars fól í sér ummæli sem dómarar leiksins hafa metið sama eðlis og þau sem framkvæmdastjóri HSÍ hefur vísað til nefndarinnar. Með hliðsjón af framangreindri niðurstöðu telur aganefnd ekki tilefni til að gera þjálfaranum frekari refsingu í máli þessu,“ segir í úrskurði aganefndar í gær en hann var birtur í dag.


Jónatan Þór var í leikbanni þegar KA fékk Selfoss í heimsókn á sunnudaginn var.

Skýrsla og erindi vegna Sigurðar

Einnig tók aganefnd í gær fyrir mál gegn Sigurði Bragasyni þjálfara kvennaliðs ÍBV. Aganefnd hefur borist skýrslu dómara leiksins vegna mjög grófrar ódrengilegrar hegðunar Sigurðar eftir leik ÍBV og Vals í Olís deild kvenna á síðasta laugardag. Einnig hefur komið til nefndarinnar erindi frá framkvæmdastjóra HSÍ vegna ósæmilegrar hegðunar Sigurðar eftir leik, eins og handbolti.is sagði frá í gær.


Aganefnd segir í tilkynningu sinni að þar sem um sömu atburðarrás sé að ræða verði fjallað saman um málin. Afgreiðslu var frestað til næsta fundar. Í millitíðinni verður ÍBV gefinn kostur á að skila inn skriflegri greinargerð vegna erindis framkvæmdastjóra HSÍ. Jafnframt verður óskað eftir greinargerð frá handknattleiksdeild Vals vegna málsins.

HK-ingur í bann

Sigurður Jefferson Guarino leikmaður HK hlaut útilokun með skýrslu vegna gáleysislegrar aðgerðar í leik Víkings og HK í Grill 66-deild karla á síðasta föstudag. Aganefnd úrskurðaði Sigurð í eins leiks bann og verður hann ekki í liði HK á morgun gegn Selfoss U.

Sleppa með áminningu

Halldór Ingi Óskarsson, Víkingi U, Ásta Björk Júlíusdóttir, ÍBV, Jóhanna Lind Jónasdóttir, HK U, Aron Hólm Kristjánsson, Þór, Gunnar Valdimar Johnsen, Víkingi og Ísak Óli Eggertsson leikmaður KA U, fara ekki í leikbann þrátt fyrir að hafa hlotið útilokun með skýrslu í leikjum síðustu daga. Brot þeirra eru ekki metin svo alvarleg að þau falli undir leikbann. Öll eru þau hinsvegar minnt á stighækkandi áhrifum útlokana vegna slíkra brota, skv. 2. mgr. 11. sömu reglugerðar.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -