Guðmundur Bragi Ástþórsson og Ísak Gústafsson fögnuðu sigri í dag með TMS Ringsted á heimavelli er liðið lagði Nordsjælland, 37:34, í níundu umferð dönsku úrvalsdeildarinnar í handknattleik. Með sigrinum færðist Ringsted upp í 10. sæti deildarinnar með sjö stig en Nordsjælland er tveimur stigum á eftir í 12. sæti af 14 liðum deildarinnar.
Ísak skoraði þrjú mörk í fjórum skotum og átti einnig eina stoðsendingu. Guðmundur Bragi hafði hægar um sig en oft áður, skoraði eitt mark og var einu sinni vikið af leikvelli.
Jöfnunarmark á elleftu stundu
Kristján Örn Kristjánsson, Donni, og liðsfélagar hans í Skanderborg AGF kræktu á ævintýralegan hátt í jafntefli á heimavelli við Sønderjyske, 36:36. Þremur og hálfri mínútu fyrir leikslok blés ekki byrlega fyrir Skanderborg-liðinu. Það var fjórum mörkum undir, 35:31, eftir að hafa átt á brattann að sækja lengst af. Með miklum endaspretti tókst að jafna metin. Emil Lærke skoraði jöfnunarmarkið fimm sekúndum áður en leiktíminn var á enda.
Donni var næst markahæstur leikmanna Skanderborgarliðisins með fimm mörk í átta skotum auk þriggja stoðsendinga.
Áfram í þriðja sæti
Skanderborgarliðið er áfram í þriðja sæti dönsku úrvalsdeildarinnar með 13 stig að loknum níu leikjum. GOG, sem á leik til góða á morgun, getur jafnað Skanderborg að stigum með sigri. Aalborg er áfram efst með fullt hús stiga og jóska smáliðið Mors-Thy er í öðru sæti með 14 stig.





