- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Kalandadze fer aftur með Georgíu á EM – Ísrael á möguleika á EM-sæti

Tite Kalandadze landsliðsþjálfari Georgíu hefur komið landsliðinu á annað Evrópumótið í röð. Ljósmynd/EPA
- Auglýsing -


Georgíumenn innsigluðu í dag farseðil sinn á Evrópumót karla í handknattleik sem fram fer á næsta ári þegar þeir lögðu Grikki, 29:26, í Tiblisi Georgíu í næst síðustu umferð undankeppninnar. Um er að ræða annað Evrópumótið í röð sem landslið Georgíu tekur þátt í. Árangur er rós í hnappagat landsliðsþjálfarans Tite Kalandadze sem lék hér á landi með ÍBV og Stjörnunni á árunum fyrir hrun.

Georgíumenn eru öruggir um annað sætið í 3. riðli undankeppninnar næst á eftir íslenska landsliðinu. Landslið Georgíu kemur hingað til lands um helgina og leikur við íslenska landsliðið í Laugardalshöll á sunnudaginn klukkan 16 í lokaumferð undankeppninnar.

Ísland – Georgía – miðasala.

Grikkir voru með yfirhöndina í hálfleik í Tiblisi, 16:14. Heimamenn sneru hressilega við taflinu í síðari hálfleik.
Giorgi Arvelodi Dikhaminjia var markahæstur í georgíska liðinu með sjö mörk. Irakli Kbilashvili var næstur með sex mörk. Stórskyttan Giorgi Tskhovrebadze var slakur og átti mörg púðurskot, skoraði fjögur mörk í 11 skotum.

Dimitrios Tziras atkvæðamestur Grikkja með sjö mörk.
Bosníumenn og Grikkir mætast á sunnudaginn en báðar þjóðir eiga veika von um að skriða áfram sem eitt fjögurra liða úr þriðja sæti riðlanna.

Verður Ísrael með á EM?

Ísraelsmenn eiga raunhæfa möguleika á að komast í lokakeppni EM í fyrsta sinn síðan 2002. Ísrael vann Pólland, 33:31, í Constanta í Rúmeníu í dag. Sigurinn færði ísraelska liðið upp í annað sæti 8. riðils undankeppninnar.

Ísrael mætir Portúgal á sunnudaginn en Portúgal er í efsta sæti. Þótt ólíklegt sé að ísraelska liðið nái að halda öðru sæti riðilsins þegar upp verður staðið eru talsverðar líkur á að sigurinn í dag nægi til þess að komast áfram sem eitt af fjórum liðum sem nær bestum árangri í þriðja sæti og fari þar með áfram.

Martraðabyrjun nýs þjálfara

Tap Pólverja í dag var sannkölluð martraðabyrjun fyrir Spánverjann Javier Gonzalez nýjan landsliðsþjálfara Póllands og aðstoðarmann hans Julen Aguinagalde. Gonzalez var ráðinn landsliðsþjálfari til þriggja ára fyrir nokkrum vikum eftir slakan árangur pólska landsliðsins á HM í janúar.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -