- Auglýsing -

Kannski fær fréttastjórinn bita af harðfiski

- Auglýsing -
  • Handbolti.is er 5 ára í dag. Áfanganum verður fagnað á hófsaman hátt. Munaðaraukinn verður e.t.v. sá að fréttastjórinn fær bita af harðfiski um miðjan daginn beri honum gæfa til að láta smáfuglana í nágrenninu í friði.
  • Fimmtudaginn 3. september 2020, á miðjum covid-tímum, var handbolti.is opnaður eftir snarpan undirbúning, eins og sagði í kynningu að morgni fyrsta útgáfudags.
  • Hugmyndin var ekki ný af nálinni og alls ekki frumleg. Hún sameinaði tvennt, vöntun á fréttamiðli á netinu góða sem eingöngu fjallaði um handbolta og veita um leið atvinnulausum kalli vinnu. Sjá til þess að hann hefði eitthvað sæmilegt fyrir stafni úr því að hvergi voru not fyrir starfskrafta hans.
  • Nú er svo komið að um er að ræða dýrasta og tímafrekasta hobbí sem þessi sami brátt sextugi kall hefur eignast. Fleiri hafa síðan höggvið í sama knérunn, sem er vel, enda heimsyfirráð eða leiðtogahlutverk aldrei markmið hjónaleysanna sem að þessu hobbíi standa.
  • Eins og gefur að skilja hefur mikið vatn runnið til sjávar síðan og handbolti.is hóf útgáfu í núverandi mynd fyrir fimm árum. Margt hefur glatt þann sem neðan undir þetta lesmál ritar og titlar sig umsjónarmann vefsíðunnar við hátíðleg tækifæri. Á það ekki síst við viðbrögð almennings sem frá upphafi hafa verið hvetjandi. Handbolti.is hefur dag hvern tryggan hóp lesenda, sem alls ekki er sjálfgefið. Fyrir það verður seint að fullu þakkað.
  • Ekki verður framhjá því horft að eitt og annað orðið valdið vonbrigðum eða ekki ekki heppnast á síðustu fimm árum. Það er eins og gengur og gerist í lífinu. Án þess að fara nánar út í þá sálma hér er óhætt að segja að vonir stóðu til þess í upphafi að handbolti.is þróaðist á annan hátt en raun hefur orðið.
  • Áfram verður skröltst við útgáfu handbolta.is og ekki eytt umfram það sem aflað er. Alltént verður einhver mynd á útgáfunni á þeirri leiktíð handboltafólks sem er að hefjast þessa dagana. Hvað morgundagurinn ber í skauti sér er hinsvegar ómögulegt að segja til um eins og dæmin sanna.

Ívar Benediktsson, [email protected]

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -