- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Karen Íþróttamaður Fram 2022

Karen Knútsdóttir, Íþróttamaður Fram 2022. Mynd/Fram
- Auglýsing -

Karen Knútsdóttir, handknattleikskona, hefur verið kjörin Íþróttamaður Fram 2022. Karen stjórnaði leik Framliðsins eins og herforingi þegar Fram varð Íslandsmeistari 2022, eftir úrslitarimmu við Val. Karen, sem var útnefnd besti sóknarleikmaður OLÍS-deildarinnar af Handknattleikssambandi Íslands, HSÍ, í verðlaunahófi sambandsins 2. júní 2022, var útnefnd mikilvægasti leikmaður úrslitakeppninnar um Íslandsmeistaratitilinn og þá fékk hún einnig Háttvísiverðlaun Handknattleiksdómarasambands Íslands, HSDÍ. Hún vakti athygli og aðdáun fyrir háttvísi, drenglyndi og prúðmennsku í hvívetna í kappleikjum Íslandsmótsins 2021-2022, hjá dómurum.

 Það var í annað sinn sem Karen fær háttvísisverðlaun HDSÍ; áður fyrir ellefu árum, 2011, en þá var hún einnig valin besti sóknarleikmaðurinn í efstu deild kvenna.

Fór á kostum

Karen fór á kostum í úrslitakeppninni um Íslandsmeistaratitilinn, var óstöðvandi. Hún skoraði 8,5 mörk að jafnaði í leik og var með 77% skotnýtingu, átti 4,8 stoðsendingar að meðaltali í leik, var með  8,9 í einkunn fyrir framlag sitt í leikjum í úrslitakeppninni.

 Karen, sem á árinu var kölluð á ný í landsliðið, var í lokahófi handknattleiksdeildar Fram 16. júní í veislusal Fram í Safamýri, útnefnd besti leikmaður Framliðsins 2022.

Karen Knútsdóttir með verðlaunagrip sem hún fékk fyrir að vera valin mikilvægasti leikmaður úrslitakeppni Olísdeildar kvenna í vor. Mynd/Mummi Lú

 Ágúst Þór Jóhannsson, þjálfari Vals, hrósaði Karen í hástert eftir úrslitarimmu Fram og Vals, sem að hans mati var stór partur af Íslandsmeistaratitli Fram og þar hafi munurinn á liðunum legið. Hann sagði í viðtali eftir úrslitarimmurnar: „Fram var sterkari á svellinu en við í þessu einvígi. Fram hefur Karen í sínu liði. Fram er með marga góða leikmenn meðal annars Hafdísi [Renötudóttur] sem lokaði tveimur leikjum.“ 

Karen lék í Þýskalandi, Danmörku og Frakklandi í sex ár, 2011-2017. Kom heim og varð Íslandsmeistari í fyrsta skipti 2018, eftir að hafa verið frá keppni um tíma; hásin slitnaði.

Þess má geta að Karen hefur ekki leikið með Framliðinu í vetur. Hún er í barnseignarfríi.

Einnig valin fyrir 12 árum

Karen hefur einu sinni áður hlotið nafnbótina Íþróttamaður ársins hjá Fram; 2010. Sex handknattleikskonur hafa verið kjörnar Íþróttamenn Fram síðan fyrst var kjörið á 100 ára afmæli Knattspyrnufélagsins Fram, 2008, er Björgvin Páll Gústafsson var kjörinn. Þær eru:

Steinunn Björnsdóttir, 2016, 2018, 2019.

Stella Sigurðardóttir, 2009, 2012.

Karen Knútsdóttir, 2010, 2022.

Sigurbjörg Jóhannsdóttir, 2014.

Guðrún Ósk Maríasdóttir, 2017.

Ragnheiður Júlíusdóttir, 2020.

Fyrir utan Björgvin Pál hafa tveir handknattleiksmenn verið kjörnir; Jóhann Gunnar Einarsson 2013 og Arnar Freyr Arnarsson 2015.Tveir knattspyrnumenn hafa verið kjörnir, báðir markverðir. Ögmundur Kristinsson 2011 og Ólafur Íshólm Ólafsson 2021.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -