Katla María Magnúsdóttir landsliðskona í handknattleik og leikmaður Selfoss meiddist alvarlega á vinstri ökkla þegar rúmar 19 mínútur voru liðnar af undanúrslitaleik Selfoss og Stjörnunnar í Laugardalshöll. Leikurinn stendur yfir þegar þetta er skrifað. Eftir því sem næst verður komist fór Katla María úr ökklalið.
Gera varð langt hlé á leiknum á meðan Kötlu Maríu var veitt fyrsta hjálp af þrautreyndum sjúkraþjálfurum beggja lið og lækni sem var í Laugardalshöll. Katla María er á leið í sjúkrabíl á sjúkrahús til nánari aðhlynningar og rannsókna þegar þetta er ritað.
Meiðslin er svo alvarleg að ljóst er að Katla María leikur ekki fleiri leiki á leiktíðinni, því miður. Meiðslin eru vitanlega mikið áfall jafnt fyrir Kötlu Maríu og Selfossliðið enda hefur hún verið aðalskytta liðsins sem leikið hefur frábærlega í vetur, jafnt í Grill 66-deildinni og í Powerade-bikarnum.
Selfoss var yfir 9:7 í leiknum þegar Katla María meiddist. Sigurlið leiksins mætir Val í úrslitum Poweradebikarsins á laugardaginn.