Núverandi keppnisfyrirkomulag Meistaradeildar Evrópu í handknattleik karla hefur orðið til þess að keppnin er ekki eins áhugaverð og hún var fyrir nokkrum árum að mati Nikolaj Jacobsen, landsliðsþjálfara heimsmeistara Danmerkur. Með 14 umferðum í riðlakeppninni ár hvert lið telur hann að verið sé að teygja lopann. Af sextán liðum heltast aðeins fjögur úr leik eftir riðlakeppnina sem stendur yfir frá því snemma í september og fram í mars.
„Ég lít svolítið þannig á að þetta er of langur aðdragandi að því sem er að byrja núna,“ segir Jacobsen við DR í tilefni þess að í kvöld hefst útsláttarkeppnin en að henni lokinni fæst úr skorið hvað fjögur lið komast í átta liða úrslit í viðbót við fjögur sem fóru beint áfram eftir riðlakeppnina langdregnu.
„Keppnin hefur tapað sjarma sínum að mínu mati. Sem dæmi þá þótti eitt sinn vera eitthvað sérstakt og eftirsóknarvert við að fara til Veszprém og leika þar. Stundum gátu liðið fimm ár á milli þess sem lið fóru þangað. Núna fara mörg lið þangað næstum því á hverju ári,“ segir Jacobsen. Heimavöllur Veszprém þykir einn sá skemmtilegasti í Evrópu.
Fleiri riðlar með færri liðum
Þess í stað leggur Jacobsen til fleiri riðla með færri liðum – þó án þess að fækka þátttökuliðum sem hafa verð sextán undanfarin ár.
Sama fyrirkomulag er á keppni í Meistaradeildar kvenna og karla.