- Auglýsing -

Kjöldrógu Spánverja í upphafsleiknum í Skopje

- Auglýsing -


Pitlarnir í 17 ára landsliðinu kjöldrógu spænska landsliðið í fyrstu umferð handknattleikskeppni Ólympíuhátíðar Evrópuæskunnar í Skopje í Norður Makedóníu í dag. Spænska liðið átti aldrei möguleika gegn afar vel samæfðu og ákveðnu íslensku liði sem vann með 13 marka mun, 31:18. Staðan að loknum fyrri hálfleik var 12:8, Íslandi í vil.


Öflugur varnarleikur og markvarsla á upphafsmínútunum sló Spánverja strax út af laginu. Þeir lentu strax undir og þegar þjálfari þeirra tók leikhlé eftir liðlega 17 mínútur var staðan, 9:3, Íslandi í hag. Heldur hresstust þeir spænsku á þeim mínútum sem eftir var af fyrri hálfleik svo aðeins var fjögurra marka munur í hálfleik, 12:8.

Ásgeir Örn Hallgrímsson þjálfari 17 ára landsliðsins leggur piltunum lífsreglurnar fyrir viðureignina. Ljósmynd/HSÍ

Fljótlega í síðari hálfleik tók íslenska liðið öll völd á leikvellinum. Bilið breikkaði eftir því sem leið á og sex mínútum fyrir leikslok var forskot Íslands 10 mörk, 27:17. Spænsku piltarnir hentu handklæðinu inn í hringinn og játuðu sig sigraða.

Króatar og Norður Makedóníumenn eiga einnig lið í riðli Íslands og Spánar en hafa ekki hafið leik ennþá.

Íslensku piltarnir mæta króatíska landsliðinu á morgun klukkan 14. Króatar unnu Norður Makedóníu, 27:19, í síðari leik dagsins í A-riðli.

Endurgjaldslausar útsendingar frá hátíðinni eru á https://eoctv.org/.


Mörk Íslands: Gunnar Róbertsson 9, Freyr Aronsson 6, Ómar Darri Sigurgeirsson 3, Matthías Dagur Þorsteinsson 3, Patrekur Smári Arnarsson 2, Kristófer Tómas Gíslason 2, Alex Unnar Hallgrímsson 2, Bjarki Snorrason 2, Anton Frans Sigurðsson 1, Örn Kolur Kjartansson 1.

Varin skot: Anton Máni Francisco Heldersson 12, Sigurmundur Gísli Unnarsson 4.

Úrslit dagsins:
A-riðill:
Spánn – Ísland 19:31.
Norður Makedónía – Króatía 19:27.

B-riðill:
Portúgal – Noregur 32:25.
Þýskaland – Ungverjaland 36:28.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -