Runar varð í dag norskur bikarmeistari í handknattleik karla eftir sigur á Kolstad, 34:33, í Unity Arena í Bærum. Vítakeppni þurfti til þess að knýja fram hrein úrslit á annan hvorn veginn. Jafnt var eftir 60 mínútna leik, 29:29. Jafntefli eru ekki tekin gild í úrslitaleik bikarkeppninnar.
Sigvaldi Björn Guðjónsson var eini Íslendingurinn sem lék með Kolstad í dag. Hann skoraði sex mörk, þar af eitt mark í vítakeppninni. Félaga hans brást bogalistin sem varð til þess að Runar vann vítakeppnina, 5:4, og varð bikarmeistari.
Runar varð þar með bikarmistari í fimmta skipti og í fyrsta sinn frá árinu 2009. Kolstad hafði unnið bikarkeppnina þrjú síðustu ár.
Kolstad-liðið var sterkara í fyrri hálfleik og var með sex marka forskot í hálfleik, 18:12. Vopnin snerust í höndum leikmanna liðsins í síðari hálfleik. Even Haugli jafnaði metin, 29:29, fyrir Runar þegar sex sekúndur voru eftir af hefðbundnum 60 mínútna leik.
Benedikt Gunnar Óskarsson lék ekki með Kolstad vegna meiðsla. Hann handarbrotnaði skömmu fyrir jól. Sigurjón Guðmundsson var ekki annar tveggja markvarða liðsins að þessu sinni.



