Handknattleikssamband Evrópu, EHF, lofar bót og betrun við skipulagninu næstu Evrópumóta karla og kvenna í nýrri tilkynningu sem send var út í morgun. Skyndilega er komið annað hljóð í strokkinn í tilkynningu morgunsins frá því í gær þegar EHF svaraði hispurlausri gagnrýni Dags Sigurðssonar landsliðsþjálfara Króatíu á leikjaskipulag Evrópumóts karla á blaðamannafundi og gerði lítið úr gagnrýni Dags. Var m.a. vísað til fyrri móta þar sem hlutirnir hafi verið í föstum skorðum.
Nú tekur EHF fram að gerðar verði breytingar á næstu mótum karla og kvenna og leikjadagskrá breytt til þess að draga úr álagi leikmanna og tryggja meira jafnrétti milli þátttakenda þegar kemur að hvíldar- og ferðadögum.
Fyrir EM kvenna 2026 í Póllandi, Rúmeníu, Tékklandi, Slóvakíu og Tyrklandi (3. til 20. desember 2026) mun dagskráin tryggja að ferða- og hvíldardagar verði aðskildir.
Fyrir EM karla 2028 á Spáni, í Portúgal og Sviss (13. – 30. janúar 2028) verður aldrei leikið tvo daga í röð. Ferða- og hvíldardagar verða aðskildir.
Myndskeið: Eldmessa Dags yfir stjórnendum EHF
Tekin upp átta liða úrslit
Fyrir EM kvenna 2028 í Noregi, Danmörku og Svíþjóð, sem og fyrir öll komandi Evrópumót frá og með 2030, er Handknattleikssamband Evrópu í viðræðum við viðkomandi mótshaldara um að taka upp átta liða úrslit.
Ef þau verða tekin upp mun hámarksfjöldi leikja (níu) haldast óbreyttur. Innleiðing átta liða úrslita mun tryggja að alltaf verði að lágmarki einn hvíldardagur á milli leikja. Ferðadagar verða aðskildir.
EHF svarar Degi: Svipað og á EM í Króatíu 2018 – öllum ljóst í fyrir hálfu ári
Dagur og Króatar eru brjálaðir út í EHF



