Loksins þegar handknattleikslið FH komst af stað gekk ferðin til Belgrad afar vel, að sögn Sigurðar Arnar Þorleifssonar liðsstjóra. Flogið var til Þýskalands í nótt sem leið en seinka varð brottför sem upphaflega var áætluð upp úr hádegi í gær. Eins og kom fram á handbolti.is í gær fóru áætlanir úr skorðum vegna veðurs.
Eftir millilendingu í Þýskalandi snemma í morgun var farið með beinu flugi til Belgrad þangað sem komið var upp úr hádegi að staðartíma. Voru allir fegnir að komast inn á hótel og kasta mæðinni, að sögn Sigurðar.
FH-ingar æfa í Sportski Centar „Vozdovac“ í Belgrad í kvöld. Þar er rúm fyrir 1.900 áhorfendur eftir því sem næst verður komist. Þar verður síðari viðureign liðsins við RK Partizan á morgun. Flautað verður til leiks klukkan 16 að íslenskum tíma.
Jafntefli í fyrri leiknum
Jafntefli var í fyrri viðureign liðanna í Kaplakrika á laugardagskvöldið, 34:34. Leikmenn FH hafa þar með verk að vinna á morgun ef þeir ætla að tryggja sér sæti í 3. umferð Evrópubikarkeppninnar.
Ozren Backovic og Mirko Palackovic frá Slóveníu dæma leikinn. Eftirlitsmaður verður Bosníumaðurinn Vladimir Jovic.
Uppfært – Myndskeið frá æfingu í kvöld – þar má sjá hvernig keppnishúsið lítur út að innan.