Tinna Laxdal skrifar:
Kría sigraði Fram U 30:27 í Hertz höllinni á Seltjarnarnesi í kvöld. Kristján Orri Jóhannsson var atkvæðamestur fyrir hönd heimamanna með 11 mörk en hjá Ungmennaliði Fram voru Marteinn Sverrir Ingibjargarson og Róbert Árni Guðmundsson markahæstir með 7 mörk hvor. Það var líf og fjör á áhorfendapöllunum og þeir 100 áhorfendur sem fengu inngöngu á leikinn létu vel í sér heyra. Kría er nýliði í Grill 66-deildinni og óhætt að segja að hún hafi sent sterk skilaboð til andstæðinganna strax í fyrsta leik.
Ungmennalið Fram sýndu flotta takta í leiknum, sérstaklega í fyrri hálfleik. Marteinn Sverrir Ingibjargarson sem er uppalinn í ÍR stjórnaði spilinu vel á miðjunni og skoraði mikilvæg mörk. Marteinn sagði eftir leikinn að planið þeirra hafi fyrst og fremst verið að njóta leiksins, ásamt því að stríða og pirra leikmenn Kríu. Þeir vissu að þeir væru að fara í erfiðan leik, en Frömurum var spáð 9. sætinu í Grill 66 deildinni af fyrirliðum og forráðarmönnum deildarinnar, á meðan Kríu var spáð 2. sætinu. Marteinn vonar að liðið nái að stríða fleiri liðum í vetur, en markmiðið er að enda ofar á töflunni en þeim var spáð.
Kristján Orri Jóhannsson sagðist hafa verið kominn með leið á handbolta og valdi þess vegna að spila með Kríu í Grill 66 deildinni í vetur þrátt fyrir að hafa fengið tilboð frá mörgum liðum í Olís deildinni. Hann segir að það sé mikið að gera utan handboltans og telur hann sig vera að finna gleðina í handboltanum aftur með Kríu í skemmtilegum leikmannahópi. Kríumenn fóru inn í leikinn með það í huga að einbeita sér að eigin leik og einblíndu lítið á leik andstæðinganna. Skilaboðin voru fyrst og fremst um að spila almennilegan handbolta og keyra tilbaka.
Kristján sagðist ekki finna fyrir pressu eftir að Kríu var spáð 2. sætinu, hann furðaði sig frekar á því að vera ekki spáð 1. sætinu.
Sebastian Alexandersson þjálfari Ungmennaliðs Fram var mjög ánægður með leik sinna manna í dag og fannst mikið til Kríu liðsins komið, enda liðið skipað fyrverandi unglingalandsliðsmönnum og margreyndum Olísdeildarleikmönnum. Sebastian telur tilkomu Kríu í handboltaflóruna jákvæða, enda hefur vantað vettvang fyrir ákveðna leikmenn að halda áfram að sinna íþróttinni. Leikmenn eins og Jóhann Kaldal og tvíburarnir úr FH hefðu aldrei átt að þurfa að hætta í handbolta.
Sebastian segir eigið lið lítið hugsa um hvaða sæti þeir endi í að lokum leiktíðarinnar, ungmennaliðið sé fyrst og fremst vettvangur fyrir unga og óreynda leikmenn til taka út þroska og bæta sig sem handboltamenn. Það muni svo gagnast Fram á komandi árum. Hann segir ennfremur að það hafi tekið smá tíma fyrir leikmennina sína að átta sig á því hversu góðir leikmenn Kríu séu, enda höfðu þeir ekki séð þá áður.
Lárus Gunnarsson þjálfari Kríu lýsir Kríu fyrst og fremst sem vettvangi fyrir leikmenn sem vilja keppa í handbolta en hafa ekki tök á því að æfa 6 sinnum í viku. Um framvindu leiksins í kvöld sagði Lárus að spennustigið hjá sínum mönnum hafi verið of hátt en hann hafi engu að síður verið ánægður með sigurinn. Lárus taldi Kríumenn hafa þurft að hafa óþarflega mikið fyrir hverju marki og vonast eftir meira framlagi frá hornamönnum í næsta leik, auk þess sem vörnin og markvarslan þurfi að batna.
Mörk Kríu: Kristján Orri Jóhannsson 11, Daði Laxdal Gautason 4, Gellir Michelsen 4, Filip Andonov 3, Jóhann Kaldal 2, Valgeir Gunnlaugsson 1, Júlíus Þórir Stefánsson 1, Alex Viktor Ragnarsson 1, Egill Ploder 1, Henrik Bjarnason 1, Hlynur Bjarnason 1.
Mörk Fram U: Marteinn Sverrir Ingibjargarson 7, Róbert Árni Guðmundsson 7, Aron Örn Heimisson 4, Aron Fannar Sindrason 3, Arnór Róbertsson 3, Þorvaldur Tryggvason 2, Stefán Orri Arnaldsson 1.
Hér myndskeið af markinu sem innsiglaði sigur Kríu í kvöld.