- Auglýsing -
- Auglýsing -
-Auglýsing-

Kristianstad verður umturnað í Litla-Ísland

- Auglýsing -

„Ég er tengiliður og er í smá vinnu fyrir mótshaldarana. Ég er að svara þessum helstu spurningum og er búin að vera að þýða fyrir þá,“ segir Tinna Mark Antonsdóttir Duffield í samtali við handbolta.is

Tinna er sjúkraþjálfari sem er búsett í Kristianstad í Svíþjóð ásamt handboltamanninum Ólafi Andrési Guðmundssyni, leikmanni HF Karlskrona, og börnum þeirra. Íslenska karlalandsliðið spilar leiki sína í F-riðli á Evrópumótinu sem hefst í næstu viku í Kristianstad, dagana 16., 18. og 20. janúar.

Býst við 2.500 Íslendingum

Tinna verður Íslendingum innan handar á meðan mótinu stendur og hefur verið dugleg að setja inn tilkynningar og ábendingar í sérstakan stuðningsmannahóp á Facebook fyrir þann fjölda stuðningsmanna sem hyggst styðja við bakið á íslenska liðinu í bænum.

„Ég held að það sé búið að selja 2.000 miða til Íslendinga. Höllin tekur 5.000 manns. En það er bara það sem við vitum, það er bara það sem er búið að selja á það sem var opinbera íslenska svæðið.

Svo held ég að það séu alveg fleiri sem voru búnir að kaupa sér miða sem var ekki í gegnum íslenska hlekkinn. Ég get alveg ímyndað mér að það verði allavega 2.500 Íslendingar hérna. Þetta verður svakalegt,“ segir Tinna.

EM karla 2026 – leikdagar, leikstaðir, leiktímar

Tinna er meðal annars sjúkraþjálfari íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu. Mynd: Úr einkasafni.

Vonandi svipað margir í Malmö

Komist Ísland áfram í milliriðil Evrópumótsins heldur liðið kyrru fyrir í Svíþjóð, færir sig yfir til Malmö og myndi þar að öllum líkindum mæta heimamönnum í Svíþjóð.

Aðspurð hvort hún viti hversu hátt hlutfall Íslendinga verði í Malmö gangi allt að óskum í F-riðlinum segir Tinna:

„Ég veit nefnilega ekki alveg hvernig er búið að seljast í Malmö. Ef við förum áfram verðum við með Svíum í milliriðli og ég veit nefnilega að Svíarnir eru búnir að kaupa upp miðana í höllina í Malmö. En við fengum samt eitthvað svæði.

Ég geri alveg ráð fyrir að það verði eitthvað af Íslendingum í Malmö líka, vonandi eitthvað svipað. En ég veit ekki alveg hvað er búið að selja þar. Ég veit bara að það er búið að selja þetta marga miða í Kristianstad.“

Alveg sama um hinar þjóðirnar

Fjöldi viðburða eru áætlaðir í Kristianstad í tilefni komu Íslendinga. Þó hún sé með puttana í mörgu sem tengiliður kemur Tinna ekki með beinum hætti að skipulagningu þessara viðburða.

„Ekki beint, ég er að aðstoða mótshaldarana með það sem þarf að gera. Þeir eru með ég veit ekki hvað marga í vinnu og eru búnir að vera að skipuleggja þetta mót í tvö ár, eða síðan þeir fengu að vita að þeir væru að fara að halda mótið.

Þeir eru að leggja gjörsamlega allt í þetta. Þeim er alveg sama um hinar þjóðirnar, þeir eru bara að stíla inn á Íslendingana. Öllum bænum verður umturnað í Litla-Ísland.

Ég er búin að aðstoða þá með ýmislegt eins og að það verða íslenskir trúbadorar á „fan-zoneinu“ (innsk. samkomusvæði stuðningsfólks). Ég er í einhverju smotteríi að hjálpa þeim en ég er ekki í því að skipuleggja, er bara að aðstoða þá með ráðum og svoleiðis,“ segir Tinna Mark Antonsdóttir Duffield um hlutverk sitt.

F-riðill (Kristianstad Arena, Kristianstad)
16. janúar: Ísland – Ítalía, kl. 17.
16. janúar: Ungverjaland – Pólland, kl. 19.30.
18. janúar: Pólland – Ísland, kl. 17.
18. janúar: Ítalía – Ungverjaland, kl. 19.30.
20. janúar: Pólland – Ítalía, kl. 17.
20. janúar: Ungverjaland – Ísland, kl. 19.30.

EM 2026.

A-landslið karla.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -