Kristín Aðalheiður Jóhannsdóttir tryggði KA/Þór annað stigið í heimsókn liðsins til Vals í Origohöllina á Hlíðarenda í kvöld þar sem liðið mættust í Olísdeild kvenna, 23:23. Staðan var jöfn, 11:11, eftir fyrri hálfleik.
Valur er í efsta sæti deildarinnar eftir leikinn í kvöld með níu stig eftir sex leiki. KA/Þór er stigi á eftir ásamt Fram en hefur leikið sex sinnum en Fram í fimm skipti.
Upphaflega stóð til að leikurinn færi fram á laugardaginn en þá var að fresta honum vegna ófærðar.
Viðureignin í Orighöllinni í kvöld var hnífjöfn frá upphafi til enda og sjaldan var munurinn meiri en eitt mark. Valur var yfirleitt á undan að skora en KA/Þór komst fjórum sinnum yfir, síðast einu marki þegar stutt var liðið á seinni hálfleik. Kristín Aðalheiður skoraði jöfnunarmarkið þegar ríflega ein mínúta var til leikslok. Það var eitt fjögurra marka hennar í leiknum.
Valur átti síðustu sóknina en hún rann út í sandinn áður en liðinu tókst að skora sigurmarkið.
Lovísa Thompson og Þórey Anna Ásgeirsdóttir voru atkvæðamiklar í Valsliðinu. Lovísa, Mariam og Hulda Dís Þrastardóttir voru fastar fyrir vörninni.
Rut Arnfjörð Jónsdóttir var markahæst hjá KA/Þór. Anna Þyrí Halldórsdóttir fór á kostum í vörn liðsins.
Mörk Vals: Lovísa Thompson 8, Þórey Anna Ásgeirsdóttir 6/1, Mariam Eradze 3, Hulda Dís Þrastardóttir 2, Ásdís Þóra Ásgeirsdóttir 1, Elín Rósa Magnúsdóttir 1, Sigrún Ása Ásgrímsdóttir 1.
Mörk KA/Þórs: Rut Arnfjörð Jónsdóttir 9/6, Ásdís Guðmundsdóttir 4/2, Kristín Aðalheiður Jóhannsdóttir 4, Aldís Ásta Heimisdóttir 3, Hulda Bryndís Tryggvadóttir 2, Anna Þyrí Halldórsdóttir 1.