Hægri hornamaðurinn, Kristófer Máni Jónasson, hefur kvatt herbúðir Vals á Hlíðarenda og gengið til liðs við FH. Samningur sem gildir til ársins 2027 hefur verið undirritaður eftir því sem fram kemur í tilkynningu FH.
Máni kom til Vals fyrir tveimur árum frá Haukum. Hann lék í yngri flokkum FH áður en farið var yfir til Hauka. Máni hefur sterkar tengingar til FH en faðir hans, Jónas Árnason, og föðurbræðurnir, Guðjón og Magnús, léku um árabil með FH auk afans, Árna Guðjónssonar.
Fleiri skyldmenni Mána er hægt að tína til eins og Halldór Inga, bróðir hans, og að ógleymdum frændanum, Árna Stefáni Guðjónssyni sem nú þjálfar kvennalið FH og hefur um árabil verið þjálfari yngri landsliðanna.
Máni, sem 23 ára gamall, á að baki fjölda landsleikja með yngri landsliðum Íslands og var m.a. valinn í úrvalslið heimsmeistaramóts 21 árs landsliða 2023 þegar Ísland vann til bronsverðlauna.
Fyrsti leikur Mána með FH verður gegn Aftureldingu á næsta fimmtudag í Myntkaup-höllinni að Varmá. Þess má til fróðleiks geta að Máni lék um skeið sem lánsmaður með Aftureldingu leiktíðina 2021/2022.




