Handknattleikslið ÍBV hefur náð samningi við króatísku skyttuna Marino Gabrieri um að leika með liðinu á næstu leiktíð í Olísdeild karla og í Poweradebikarnum. Hann kemur til Eyja frá RK Sloboda Tuzla í Bonsíu. Gabrieri er 23 ára gamall og kastar boltanum með hægri handleggnum.
„Arnór Viðarsson og Elmar Erlingsson verða ekki með okkur á næsta tímabil. Þar af leiðandi urðum við að bregðast við og sækja liðsauka,“ sagði Garðar Benedikt Sigurjónsson formaður handknattleiksdeildar ÍBV við handbolta.is. Að óbreyttu reiknar Garðar ekki með ÍBV sæki fleiri leikmenn. „Liðið fyrir næsta keppnistímabil er klárt nema eitthvað mjög óvænt eigi sér stað,“ sagði Garðar Benedikt ennfremur.
Elmar gengur til liðs við Nordhorn-Lingen í Þýskalandi í sumar. Um líkt leyti verður Arnar leikmaður danska úrvalsdeildarliðsins Fredericia.
ÍBV hafnaði í fjórða sæti Olísdeildar karla, tapaði fyrir FH í fimm leikja undanúrslitarimmu um Íslandsmeistaratitilinn og beið lægri hlut fyrir Val í úrslitaleik Poweradebikarkeppninnar.