Lettinn Endijs Kusners tryggði Herði sigur og tvö stig í KA-heimilinu í dag þegar Hörður sótti ungmennalið KA heim í Grill 66-deild karla í handknattleik. Kusners skoraði sigurmarkið þremur sekúndum fyrir leikslok, 28:27. Magnús Dagur Jónatansson hafði jafnaði metin fyrir ungu KA-ingana 20 sekúndum fyrir leikslok í æsispennandi leik. Kusners sá til þess að markið Magnúsar dugði skammt.
Harðarmenn fóru á kostum í fyrri hálfleik. KA-liðið virtist ekki vera með á nótunum lengi vel og var undir, 13:5, eftir 23 mínútur. Það var eins og leikmenn liðsins hresstust talsvert áður en gengið var til búningsherbergja að loknum 30 mínútum af leik. Staðan var þá 15:11, Herði í dag.
Leikmenn KA komu sem grenjandi ljón til leiks í síðari hálfleik og skoruðu fjögur fyrstu mörkin. Þar með var staðan jöfn. Það sem eftir lifði leiks var viðureignin í járnum, nánast í bókstaflegri merkingu.
Staðan og næstu leikir í Grill 66-deildum.
Mörk KA U.: Arnór Ísak Haddsson 8, Jens Bragi Bergþórsson 6, Magnús Dagur Jónatansson 5, Hugi Elmarsson 3, Logi Gautason 3, Ernir Elí Ellertsson 1, Leó Friðriksson 1.
Varin skot: Úlfar Örn Guðbjargarson 14.
Mörk Harðar: Endijs Kusners 9, Jose Esteves Neto 6, Axel Sveinsson 4, Kenya Kasahara 4, Tugberk Catkin 4, Daníel Wale Adeleye 1.
Varin skot: Stefán Freyr Jónsson 14.
Tölfræði leiksins hjá HBStatz.