- Auglýsing -
- Bjarki Már Elísson átti stórleik og skoraði 11 mörk þegar One Veszprém vann Balatonfüredi KSE, 47:25, í ungversku úrvaldeildinni í handknattleik í dag. Bjarki Már lék við hvern sinn fingur í leiknum og yfirburðir One Veszprém voru miklir. Liðið var 14 mörkum yfir í hálfleik, 23:9.
- One Veszprém er efst í ungversku úrvalsdeildinni með 26 stig eftir 13 leiki. Pick Szeged er næst á eftir með 25 stig að loknum 15 leikjum.
- Dana Björg Guðmundsdóttir skoraði þrjú mörk í öruggum sigri liðs hennar, Volda, á Pors, 37:15, á heimavelli í næstefstu deild norska handknattleiksins í dag. Volda er í fjórða sæti deildarinnar með 16 stig eftir 10 leiki, fjórum stigum á eftir Flint Tönsberg sem er efst. Flint hefur leikið einum leik fleiri en Volda.
- Óðinn Þór Ríkharðsson skoraði eitt mark þegar Kadetten Schaffhausen vann GC Amicitia Zürich, 28:26, á útivelli í A-deildinni í Sviss í dag. Kadetten er með fullt hús stiga, 32, eftir 16 leiki.
- Jóhannes Berg Andrason skoraði eitt mark, átti eina stoðsendingu og var einu sinni vikið af leikvelli þegar lið hans TTH Holstebro gerði jafntefli við SønderjyskE, 32:32, á heimavelli í dönsku úrvalsdeildinni í dag. Arnór Atlason er þjálfari TTH Holstebro sem er í 5. sæti deildarinnar með 18 stig eftir 17 leiki.
- Grétar Ari Guðjónsson markvörður var í sigurliði AEK þegar liðið lagði Feronas, 41:23, á heimavelli í 16-liða úrslitum grísku bikarkeppninnar í dag. Takmarkaðar upplýsingar er að fá um leikinn en þó er ljóst að AEK mætir PAOK frá Þessalóníku eða Aris í átta liða úrslitum bikarsins.
- Jón Ísak Halldórsson skoraði ekki mark fyrir Lemvig er liðið tapaði naumlega Team Sydhavsøerne, 33:32, á heimavelli í næstefstu deild danska handknattleiksins í dag. Lemvig er í sjöunda sæti deildarinnar en lið Suðurhafseyjanna er efst.
- Dagur Sverrir Kristjánsson komst ekki á blað hjá Vinslövs HK í sjö marka tapi liðsins fyrir IFK Ystads HK, 30:23, á útivelli í næstefstu deild sænska handknattleiksins í dag. Vinslövs HK rekur lestina í deildinni án stiga eftir 12 leiki.
- Elías Már Halldórsson þjálfari Ryger Stavanger varð að sætta sig við tap fyrir Åsane, 31:24, í næstefstu deild karla í norska handknattleiknum í dag. Rygver Stavanger er í 12. sæti af 14 liðum deildarinnar með sex stig eftir 12 leiki.
- Auglýsing -


