- Auglýsing -
- Dana Björg Guðmundsdóttir, landsliðskona í handknattleik, var markahæst hjá Volda með sjö mörk þegar liðið vann Storhamar2, 27:23, í næst efstu deild norska handknattleiksins í dag. Volda er efst í deildinni með 15 stig eftir níu leiki. Fjellhammer er stigi á eftir en á tvo leiki inni á Volda. Aker hefur 14 stig eins og Fjellahammer á leik til góða á Volda.
- Dana Björg kemur til móts við íslenska landsliðið á mánudaginn þegar undirbúningur hefst fyrir Evrópumótið sem hefst undir lok þessa mánaðar.
- Harpa María Friðgeirsdóttir skoraði þrjú mörk þegar lið hennar TMS Ringsted vann langþráðan sigur í næst efstu deild danska handknattleiksins í dag. TMS Ringsted lagði AGF, 25:24, á heimavelli. Harpa María skoraði sigurmarkið þegar 27 sekúndur voru til leiksloka, 25:23. Leikmönnum AGF tókst að klóra í bakkann á allra síðustu sekúndum með 24. markinu en það dugði skammt. Með sigrinum tókst TMS Ringsted að lyfta sér upp um tvö sæti, úr 10. sæti og upp það áttunda með sex stig eftir átta leiki.
- Benedikt Gunnar Óskarsson skoraði fjögur mörk, öll úr vítaköstum, þegar Kolstad vann Halden, 26:22, í norsku úrvalsdeildinni í handknattleik í dag. Hann geigaði ekki skoti, ekki fremur en Sveinn Jóhannsson eða Sigvaldi Björn Guðjónsson. Sveinn skoraði þrisvar og Sigvaldi Björn tvisvar.
- Kolstad er eftir sem áður í öðru sæti norsku úrvalsdeildarinnar með 18 stig að loknum 10 leikjum. Elverum er efst með 18 stig einnig en hefur lokið níu leikjum. Elverum sækir Nærbø heim í morgun. Einnig mætast þá Arendal og Drammen en Íslendingar eru í herbúðum beggja liða.
- Fredericia HK, sem Guðmundur Þórður Guðmundsson þjálfar, vann öruggan sigur á Bjerringbro/Silkeborg, 30:21, á heimavelli í dag í dönsku úrvalsdeildinni en þetta var 100. leikur Fredericia HK eftir að Guðmundur Þórður tók við þjálfun liðsins sumarið 2022. Hvorki Arnór Viðarsson né Einar Þorsteinn Ólafsson skoruðu mörk í leiknum.
- Guðmundur Bragi Ástþórsson skoraði tvö mörk fyrir Bjerringbro/Silkeborg og átti eina stoðsendingu. Bjerringbro/Silkeborg er í fjórða sæti dönsku úrvalsdeildarinnar með 15 stig eftir 11 leiki. Fredericia HK er tveimur stigum ofar í þriðja sæti með 17 stig eins og Aalborg Håndbold sem vann stórsigur á Kolding, 36:16. Nýr þjálfari Kolding, Sebastian Seifert, fékk þar með enga draumabyrjun.
- Auglýsing -