- Ungverska meistaraliðið Veszprém hefur útnefnt fjóra fyrirliða, hvern fyrir sína keppni sem liðið tekur þátt í á komandi leiktíð. Ludovic Fàbregas verður fyrirliði í leikjum Veszprém í Meistaradeild Evrópu, Nedim Remili á að bera fyrirliðabandið á heimsmeistaramóti félagsliða sem fram fer í Egyptalandi um mánaðamótin september og október. Patrik Ligetvári tekur fyrirliðastöðuna í leikjum í ungversku deildinni og fyrirliði í bikarkeppninni verður Gasper Marguc. Hvað unnið er með öllum þessum fyrirliðum kemur ekki fram.
- Faðir danska landsliðsmarkvarðarins, Emil Nielsen, lést daginn eftir fyrsta leik danska landsliðsins á Ólympíuleikunum í Frakklandi. Faðir Nielsen hafði verið veikur um nokkurt skeið. Nielsen lauk keppni á leikunum og vann gullverðlaun með samherjum sínum.
- Andlátinu var haldið leyndu fyrir dönskum fjölmiðlum fram yfir leikina. Nielsen segist hafa í samráði við fjölskylduna ákveðið að halda sínu striki þótt vissulega hafi á tíðum verið erfitt að einbeita sér að leikjum handknattleikskeppninnar. Nielsen var ekki viðstaddur útför föður síns. Hún fór fram rétt áður en Ólympíuleikunum lauk.
- Iryna Glibko landsliðskona Úkraínu í handknattleik lést í vikunni, 34 ára gömul, eftir erfið veikindi undanfarið rúmt ár. Glibko hafði leikið með SCM Ramnicu Valcea í Rúmeníu síðustu sjö ár og var m.a. valin besti maður rúmensku úrvalsdeildarinnar leiktíðina 2022/2023. Auk SCM Ramnicu Valcea hafði Blibko leikur með rúmensku liðunum CSM Búkarest og CSM Galati. Glibko lék 58 landsleiki. Þeir síðustu voru í undankeppni HM vorið 2023.
- Paul Drux, fyrrverandi landsliðsmaður Þýskalands í handknattleik og kjölfesta Füchse Berlin til margra ára, hefur ekki leikið í handknattleik að nokkru ráði í hálft annað ár vegna ítrekaðra og alvarlegra meiðsla. Síðast gekkst hann undir aðgerð á hné fyrir skömmu og hugsanlegt er að hann leiki ekkert með Füchse Berlin á komandi leiktíð.
- Drux, sem er 29 ára gamall og á yfir 100 landsleiki að baki, segist ekki vera reiðubúinn að leggja skóna á hilluna þrátt fyrir ágjafir og mótbyr.
- Auglýsing -