- Auglýsing -
- Vladan Matić fyrrverandi landsliðsmaður og landsliðsþjálfari Serbíu hefur verið ráðinn þjálfari serbneska meistaraliðsins Vojvodina. Hann tekur við af Boris Rojević sem hætti í síðustu viku eftir sigursæl ár.
- Matić er þrautreyndur þjálfari sem víða hefur komið við. Auk þjálfunar serbneska karlalandsliðsins hefur hann þjálfað Pick Szeged, Ferencváros, Celje Lasko, Tatabánya KC og RK Metaloplastika. Matić var þjálfari síðarnefnda liðsins þegar Valur sló það út í 16-liða úrslitum Evrópubikarkeppninnar á síðustu leiktíð.
- Matić hefur verk að vinna. Vojvodina er í öðru sæti serbnesku úrvalsdeildarinnar, sex stigum á eftir RK Partizan auk þess að vera stigalaust eftir tvær umferðir í 16-liða úrslitum riðlakeppni Evrópudeildarinnar.
- Þýski landsliðsmaðurinn Renars Uscins hefur skrifað undir nýjan samning við Hannover-Burgdorf til næstu tveggja ára. Uscins sló í gegn með þýska landsliðinu á EM á heimavelli fyrir rúmu ári og hefur síðan verið í burðarhlutverki þýska landsliðsins undir stjórn Alfreðs Gíslasonar. Uscins er á meðal markahæstu leikmanna þýsku 1. deildarinnar og veigamikill hlekkur í góðu gengi Hannover-Burgdorf en liðið er á meðal þeirra efstu í deildinni um þessar mundir.
- Portúgalski landsliðsmaðurinn Miguel Martins gengur til liðs við Dinamo Búkarest í sumar á tveggja ára samningi. Martins leikur nú með Aalborg Håndbold. Hann er nýlega kominn úr nokkurra vikna leikbanni vegna gruns um notkun ólöglegra lyfja, notkun sem reyndist ekki vera á rökum reist. Martins kom til danska liðsins síðasta sumar.
- Auglýsing -