- Auglýsing -
- Rúnar Sigtryggsson og leikmenn hans í þýska 1. deildarliðinu Leipzig töpuðu naumlega í kvöld í heimsókn til HSV Hamburg, 35:34. Jacob Lassen skoraði sigurmark Hamborgarliðsins þegar tvær sekúndur voru til leiksloka í Sporthalle Hamburg. Andri Már Rúnarsson jafnaði metin, 34:34, þegar 15 sekúndur voru eftir af leiktímanum. Hann skoraði tvisvar sinnum. Viggó Kristjánsson skoraði sex mörk fyrir Leipzig, þar af voru tvö úr vítaköstum. Einnig átti Seltirningurinn þrjár stoðsendingar.
- Þetta var þriðja tap Leipzig í fjórum leikjum sem eru að baki í þýsku 1. deildinni. Eftir frábært gengi í leikjum fyrir keppnistímabilið hefur lukkuhjólið ekki verið Rúnari og félögum gjöfult eftir að alvaran tók við.
- Berta Rut Harðardóttir skoraði eitt mark í þremur skotum þegar lið hennar Kristianstad vann Skara HF, 30:21, í fyrstu umferð sænsku úrvalsdeildarinnar í handknattleik í dag. Aldís Ásta Heimisdóttir skoraði tvö mörk og átti tvær stoðsendingar fyrir Skara-liðið. Jóhanna Margrét Sigurðardóttir skoraði eitt mark og átti eina stoðsendingu. Katrín Tinna Jensdóttir lék einnig með Skara HF í leiknum.
- Elín Jóna Þorsteinsdóttir og liðsmenn EH Aalborg unnu stórsigur á Ringsted í 1. umferð 1. deildar danska handknattleiksins í dag, 35:23. Leikurinn fór fram í Ringsted. Ekki liggur á lausu hvað Elín Jóna varði mörg skot í leiknum en víst er að hún skoraði eitt mark.
- Viktor Gísli Hallgrímsson varði fjögur skot af 22 sem hann fékk á sig í marki Nantes í kvöld þegar liðið vann Cesson Rennes, 32:26, í frönsku 1. deildinni í handknattleik karla. Nantes hefur unnið tvo fyrstu leiki sína örugglega.
- Ásgeir Snær Vignisson skoraði þrisvar sinnum fyrir Fjellhammer þegar liðið gerði jafntefli við Viking TIF, 25:25, á heimavelli i 3. umferð norsku úrvalsdeildarinnar í dag. Nikolas Satchwell fyrrverandi markvörður KA sem gekk til liðs við Viking í sumar var ekki í leikmannahópnum að þessu sinni. Fjellhammer er með þrjú stig eftir þrjá leiki. Viking rekur lestina með eitt stig.
- Stiven Tobar Valencia var ekki í leikmannahópi Benfica í dag þegar liðið gerði jafntefli við Póvoa, 19:19, í efstu deild portúgalska handknattleiksins. Þjóðverjinn Ole Rahmel var markahæstur hjá Benfica með sex mörk en liðið hefur fengið þrjú stig úr fyrstu þremur leikjum sínum.
- Díana Dögg Magnúsdóttir skoraði þrjú mörk úr fjórum skotum, skapaði tvö færi og vann tvö vítaköst og vann einn andstæðing af leikvelli þegar lið hennar, BSV Sachsen Zwickau, tapað með 12 marka mun, 35:23, í heimsókn til Solingen í dag í þýsku 1. deildinni í handknattleik. BSV Sachsen Zwickau hefur farið illa af stað í deildinni og tapað báðum viðureignum sínum með nokkrum mun auk þess að falla úr leik í bikarkeppninni.
- Auglýsing -