Ekki verður búningasala á vegum Handknattleikssambands Íslands í Svíþjóð meðan íslenska landsliðið tekur þátt í Evrópumótinu. Búningasalan er alveg komin í hendur verslana hér á landi. Þar af leiðandi verða stuðningsmenn landsliðsins sem vilja kaupa nýja landsliðsbúninginn að verða sér út um búninginn áður en farið verður til Svíþjóðar.
Eftir að HSÍ samdi við búningaframleiðandann Adidas lagðist af innflutningur og smásala HSÍ á búningum til einstaklinga, reyndar með þeirri undantekningu sem gerð var á HM í Króatíu fyrir ári þegar takmarkað magn var til sölu fyrir fáeina leiki. Var sambandið þar að koma til móts við stíflu sem varð til í búningasölu í aðdraganda mótsins er lítið sem ekkert var til af búningum í landinu.
Eftir því sem næst verður komist fæst landsliðsbúningurinn í flestum stærðum í nokkrum verslunum. Ekki verður hirt um að telja verslanirnar upp hér enda hafa þær ekki séð ástæðu til þess að vekja athygli á sér hjá handbolti.is.
Nærri 3.000 Íslendingar
Eins og kemur fram í viðtali við Tinnu Mark Antonsdóttur Duffield á handbolta.is er reiknað með a.m.k. 2.500 Íslendingar verði í Kristianstad á leikdögum íslenska landsliðsins á EM, 16., 18. og 20. janúar.


