Silje Solberg-Østhassel markvörður Evrópumeistara Noregs í handknattleik kvenna er ólétt og á von á sér í október. Hún tilkynnti gleðitíðindin á dögunum. Solberg hefur verið án félags síðan Vipers Kristiansand varð gjaldþrota í upphafi árs og margir veltu því fyrir sér hvort hún hafi lagt skóna á hilluna. Svo er ekki.
Solberg er ein fárra leikmanna Vipers sem ekki hefur samið við annað lið eftir Vipers lognaðist út af, ýmist á skemmri eða lengri tíma samningum. Nú hefur fengist skýring á því af hverju ekkert lið hefur tryggt sér krafta Solberg sem árum saman hefur verið ein fremst markvarða í Evrópu.
Fyrir eiga Solberg, sem er 34 ára og eiginmaður hennar, Lars Solberg-Østhassel, dótturina Emmu sem kom í heiminn sumarið 2023.