- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Langtíma markmiðið er að komast í 8-liða úrslit á HM

Strákarnir í U21 árs landsliðinu hefja leik á HM á morgun. Mynd/HSÍ
- Auglýsing -

„Við förum ekkert dult með það að markmið okkar er að komast í átta liða úrslit sem fara fram í Berlín. Til þess verður hinsvegar flest að ganga upp hjá okkur og leikmenn að vera ferskir frá fyrsta leik,“ sagði Einar Andri Einarsson annar þjálfara U21 árs landsliðs karla í handknattleik í samtali við handbolta.is í morgun. Einar Andri er staddur með sveit sína í Aþenu í Grikklandi en heimsmeistaramót 21 árs landsliða hefst í Grikklandi og í Þýskalandi á morgun og stendur til 2. júlí.

Fyrsti leikur íslenska landsliðsins verður í fyrramálið gegn Marokkóbúum í keppnishöll Olympiakos. Á miðvikudag verður andstæðingurinn landslið Chile og á föstudag mætir íslenska liðið Serbum sem hrepptu bronsverðlaun á EM 20 ára landsliða í Porto fyrir ári.

Gerum kröfu um sigur

„Við höfum náð í upptökur með leikjum landsliða Marokkó og Chile til þess að átta okkur á út í hvað við erum að fara í fyrstu tveimur leikjunum. Bæði lið leika handknattleik sem við erum ekki vanir svo það er afar gott að kynnast því sem bíður okkar. Við gerum hiklaust þá kröfu til okkar að vinna tvo fyrstu leikina,“ sagði Einar Andri sem hafði lokið við æfingu og fund með leikmönnum íslenska liðsins þegar handbolti.is sló á þráðinn til Aþenu.

Leikjadagskrá íslenska landsliðsins:
20. júní, kl. 8.00: Ísland - Marokkó.
21. júní, kl. 10.15: Ísland - Chile.
23. júní, kl. 17.15: Ísland - Serbía.
- Allir leiktímar eru vitanlega miðaðir við íslenskan tíma.
- Öllum leikjum mótsins verður streymt á youtube-síðu IHF - https://www.youtube.com/@IHFcompetitions.
- Handbolti.is hyggst fylgjast grannt með leikjum Íslands á mótinu. 
- Hafni íslenska liðið í öðru af tveimur efstu sætum riðilsins leikur það við landslið úr H-riðli. Í þeim riðli eiga sæti Egyptaland, Grikkland, Kúba og Sádi Arabía. Egyptar og Grikkir er líklegastir til afreka í þeim riðli. 

Góður undirbúningur

„Við höfum búið okkur vel undir mótið síðustu vikur. Ekki er annað að sjá en leikmenn séu klárir í slaginn og tilbúnir í fyrsta leik snemma í fyrramálið,“ sagði Einar Andri ennfremur en flautað verður til leiks klukkan 11 að staðartíma, átta árdegis á íslenskum tíma. Handbolti.is mun fylgjast með leiknum.

Benedikt komst með

Sautján leikmenn skipa íslenska liðið, þar af þrír markverðir. Flestir leikmenn hafa verið saman í landsliðinu undanfarin þrjú ár og þekkjast þar af leiðandi vel. „Við erum með hörkugott lið sem hefur mikinn metnað,“ sagði Einar Andri sem þjálfar liðið ásamt Róberti Gunnarssyni

Benedikt Gunnar Óskarsson sem meiddist illa í lok febrúar er klár í slaginn. Reynsla hans skiptir miklu máli.

„Benedikt hefur verið undir verndarvæng Kára Árnasonar sjúkraþjálfara okkar síðustu sex vikur og hefur náð góðum bata og tveimur vikum af æfingum með okkur og er bara hress eins og aðrir í hópnum,“ sagði Einar Andri.

„Fyrsta verkefnið er að komast upp úr riðlinum. Langtíma markmið er að komast í átta liða úrslit. Þriðji leikurinn verður á móti Serbum á föstudaginn. Við gerðum jafntefli við Serba á EM 20 ára landsliðs í fyrra,“ sagði Einar Andri Einarsson annar þjálfara U21 árs landsliðs karla.

Íslenski hópurinn á HM

Markverðir:
Adam Thorstensen, Stjörnunni.
Brynjar Vignir Sigurjónsson, Aftureldingu.
Jón Þórarinn Þorsteinsson, Selfossi.
Aðrir leikmenn:
Andri Finnsson, Val.
Andri Már Rúnarsson, Haukum.
Arnór Viðarsson, ÍBV.
Benedikt Gunnar Óskarsson, Val.
Einar Bragi Aðalsteinsson, FH.
Guðmundur Bragi Ástþórsson, Haukum.
Ísak Gústafsson, Selfossi.
Jóhannes Berg Andrason, FH.
Kristófer Máni Jónasson, Haukum.
Róbert Snær Örvarsson, ÍR.
Símon Michael Guðjónsson, HK.
Stefán Orri Arnalds, Fram.
Tryggvi Þórisson, IK Sävehof.
Þorsteinn Leó Gunnarsson, Aftureldingu.
Starfsmenn:
Einar Andri Einarsson, þjálfari.
Róbert Gunnarsson, þjálfari.
Guðni Jónsson, liðsstjóri.
Hlynur Morthens, markvarðaþjálfari.
Kári Árnason, sjúkraþjálfari.
Gunnar Magnússon, fararstjóri.

Riðlaskiptingu er að finna á Wikipediasíðu mótsins.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -