Markvörðurinn öflugi, Lárus Helgi Ólafsson, leikur ekki fleiri leiki með Fram á þessu ári. Hann hefur ekki verið þátttakandi í leik frá 29. október auk þess sem hann var ónotaður varamaður í leik við Gróttu 11. október vegna nárameiðsla. Eftir því sem næst verður komist eru það sömu meiðsli sem hafa haldið Lárusi Helga frá keppni síðasta mánuðinn og munu gera áfram.
Samkvæmt tölfræði HBStatz er Lárus Helgi með 35,1% markvörslu í sex leikjum með Fram í Olísdeildinni á keppnistímabilinu. Hann hefur varið að jafnaði 11,2 skot í leik og fengið á sig 20,7 mörk að meðaltali í leik.
Skarð er sannarlega fyrir skildi hjá Framliðinu vegna fjarveru Lárusar Helga enda er hann besti markvörður Olísdeildarinnar. Valtýr Már Hákonarson og Arnór Máni Daðason hafa staðið vaktina í fjarveru Lárusar Helgar. Til viðbótar fékk gamla brýnið, Magnús Gunnar Erlendsson, félagaskipti til Fram í gær og æfir með meistaraflokksliðinu þessa dagana.
Magnús Gunnar lék síðast með Víkingi en var um árabil markvörður Fram og var m.a. í meistaraliðinu vorið 2013 undir stjórn Einars Jónssonar sem tók aftur við þjálfun Fram í sumar.