„Þetta var í rauninni aldrei okkar dagur. Eins og við vorum staðráðin í koma einvíginu í oddaleik því það var mikill hugur í okkur fyrir leikinn. Margt klikkaði hinsvegar hjá okkur þegar á hólminn var komið sem við verðum að skoða,“ sagði Jón Brynjar Björnsson þjálfari Aftureldingar eftir að liðið tapaði með 10 marka mun, 28:18, fjórða og síðasta leiknum við Stjörnuna í umspili Olísdeildar kvenna í handknattleik að Varmá.
Aftureldingarliðið hitti á einn sinn versta dag og þrátt fyrir að margt hafi einnig verið að í leik Stjörnunnar þá hafði Stjarnan yfirburði í leiknum. Stjarnan vann þrjá leiki í einvíginu en Afturelding einn. Stjarnan verður þar með áfram í Olísdeildinni og Afturelding tekur þátt í Grill 66-deildinni á ný á næstu leiktíð.
„Það var leiðinlegt að enda tímabilið á þennan hátt. Margt gott hefur verið í leik okkar í vetur eftir talsverðar breytingar.“
„Andinn er góður í hópnum. Segja má að liðið hafi verð ólíkt sjálfu sér í leiknum. Okkur tókst aldrei að sýna okkar rétta andlit,“ sagði Jón Brynjar sem tók við þjálfun Aftureldingar síðasta sumar ásamt Erni Inga Bjarkasyni.
Afturelding hafnaði í þriðja sæti Grill 66-deildar og vann HK í tveimur spennuleikjum í undanúrslitum umspilsins.
„Fram til þessa hefur Aftureldingarliðið leikið mjög góða leiki í einvíginu við Stjörnuna. Eins gegn HK í undanúrslitum í mjög jöfnum leikjum. Verkefnið var erfitt en að þessu sinni tókst ekki að sýna úr hverju við erum gerðar,“ sagði Jón Brynjar og bætir við:
„Við erum gott lið og ætlum að gera vel á næsta vetri. Eftir að hafa sleikt sárin þá komum við tvíefld til leiks í haust,“ sagði Jón Brynjar Björnsson þjálfari kvennaliðs Aftureldingar í samtali við handbolta.is.
Lengra viðtal við Jón Brynjar er í myndskeiði hér fyrir ofan.
Stjarnan vann örugglega að Varmá – heldur sæti sínu í Olísdeildinni
Umspil Olís kvenna 2025: leikjadagskrá og úrslit
Var biti að kyngja fyrir okkur taka þátt í umspilinu