„Mér fannst við vera flottir og strákarnir stóðu sig vel gegn einu besta liði landsins. Við erum bara ennþá að slípa okkur til. Þetta var svolítið stöngin inn, stöngin út hjá okkur. Síðan var þetta svolítið leikhús fáránleikans og trúðasýning með. Þar af leiðandi var erfitt að vinna leikinn,“ sagði Einar Jónsson þjálfari Fram í samtali við handbolta.is eftir eins marks tap Framara fyrir Stjörnunni, 29:28, í Meistarakeppni HSÍ í Lambhagahöllinni í kvöld.
Menn bara sjá það ekki
Spurður hvað hann ætti við með „leikhúsi fáránleikans og trúðasýningu“ svaraði Einar.
„Það var verið að berja leikmenn inni á leikvellinum off ball og menn bara sjá það ekki auk þess sem mönnum var skellt í gólfið. Ég hélt að köflum að ég væri kominn til Vestmannaeyja. En ef fólk hefur gaman að svona leikhúsi þá verður stuð og stemning í vetur og trúðasýning í bónus,“ sagði Einar ennfremur.
Allt var leyft í kvöld
Spurður hvort ekki mætti eiga von á að ástandið batnaði þegar Íslandsmótinu hefst virtist Einar ekki vera vongóður. „Í fyrra var talað um að taka ætti á svona málum en það var allt leyft í kvöld og kannski verða það áherslur vetrarins. Ég veit ekki hverjar þær verða,“ svaraði Einar.
Þegar öllu var á botninn hvolft sagði Einar Stjörnuliðið hafa verið betra í þessu leikhúsi sem boðið var upp á og áttu sigurinn skilið.
Lífið heldur áfram
Talsverðar breytingar hafa orðið á Framliðinu frá því að það vann Íslandsmeistaratitilinn í vor. Þrír sterkir leikmenn réru á ný mið í sumar; Reynir Þór Stefánsson, Tryggvi Garðar Jónsson og Þorsteinn Gauti Hjálmarsson. Einar segir nægan efnivið vera fyrir hendi hjá Fram og ekki megi velta sér um of upp því sem var. „Lífið heldur áfram. Við vinnum með það við erum með. Ég tel okkur geta orðið góða eftir nokkurn tíma.“
Lengra viðtal er við Einar Jónsson í myndskeiði hér fyrir ofan.