- Auglýsing -
Íslenska landsliðið tekur þátt í heimsmeistaramótinu í handknattleik kvenna í fyrsta sinn í 12 ár síðar á þessu ári. Dregið var í riðla í sumar en loksins í morgun voru leiktímar riðlakeppninnar staðfestir. Allar þrjár viðureignir íslenska landsliðsins í D-riðli, sem fram fer í Stavangri, hefjast klukkan 17, að íslenskum tíma, 18 að staðartíma.
Leikir Íslands í D-riðli HM: 30. nóvember: Slóvenía - Ísland, kl. 17. 2. desember: Ísland - Frakkland, kl. 17. 4. desember: Angóla - Ísland, kl. 17. - Leikið verður í Stavanger Idrettshall (DNB-Arena) sem rúmar 4.100 áhorfendur í sæti.
- Alls taka lið 32 þjóða þátt í HM sem haldið verður í Danmörku, Svíþjóð og í Noregi frá 29. nóvember til 17. desember.
- Þrjú efstu lið hvers riðils fara áfram í milliriðlakeppni. Ef Ísland kemst áfram í milliriðil flytur liðið sig um set og fer til Þrándheims og leikur þar 6., 8. og 10. desember.
- Neðsta lið hvers riðils tekur þátt í keppni um forsetabikarinn, sæti 25 til 32, í Frederikshavn frá 6. til 11. desember.
Til Noregs 22. nóvember
Íslenska landsliðið hefur formlegan undirbúning fyrir HM 17. nóvember og fer til Noregs til þátttöku í fjögurra liða móti sem stendur yfir frá 23. til 26. nóvember í Hamar og Lillehammer ásamt landsliðum Angóla, Póllands og heims- og Evrópumeistara Noregs.
Hlekkur á alla leikjdagskrá HM.
Tengdar fréttir:
- Árvökul auglýsingadeild handbolta.is hefur ekki orðið vör við að flugfélög og ferðaskrifstofur hafi enn hafið sölu á hópferðum til Stavangurs á leiki íslenska landsliðsins á HM. Það er þó ekki alveg að marka þar sem flestar þeirra, þar á meðal stærsta flugfélag landsins, hundsa handbolta.is með öllu.
- Auglýsing -