„Við þurfum ekki að umturna sóknarleiknum. Mikið frekar verðum við að laga ýmis atriði sem okkur tókst ekki vinna vel úr í viðureigninni við Serba,“ sagði Bjarki Már Elísson landsliðsmaður í handknattleik í samtali við handbolta.is.
Bjarki Már var með betri leikmönnum íslenska liðsins í leiknum við Serba. Í dag stendur fyrir dyrum viðureign við granna Serba, Svartfellinga, í annarri umferð Evrópumótsins í handknattleik karla í München. Flautað verður til leiks klukkan 17.
„Ef okkur tekst að laga það sem þarf að laga þá held ég að við eigum góða möguleika á að vinna leikinn við Svartfellinga,“ sagði Bjarki Már sem var einn þeirra sem lék með íslenska landsliðinu fyrir tveimur árum þegar lið þjóðanna mættust í milliriðlakeppni EM 2022. Ísland vann með 10 marka mun, 34:24. Bjarki Már skoraði átta mörk. Leikurinn er Bjarka Má minnistæður vegna þess að hann losnaði úr sjö daga covid einangrun um morguninn sem leikurinn fór fram.
„Leikurinn við Svartfellinga snýst fyrst og fremst um okkar. Við verðum að skerpa á okkur, ná í tvö stig og koma okkur inn í mótið,“ sagði Bjarki Már Elísson í samtali við handbolta.is.
Lengri hljóðritaða útgáfu af viðtalinu er að finna hér fyrir neðan.
Verðum að bretta upp ermar og gera mikið betur
Verðum að nýta hverja einustu sókn betur
EM 2024 – leikjadagskrá, úrslit, staðan – riðlakeppni