Íþróttaæfingar fullorðinna, með og án snertingar, í greinum innan ÍSÍ í efstu deildum verður heimiluð frá og með fimmtdeginum næsta samkvæmt reglugerð sem heilbrigðisráðherra kynnti fyrir stundu í samtölum við fjölmiða eftir ríkisstjórnarfund. Nánar verður greint frá breytingunum í reglugerð sem gefin verður út í dag. Smávægilegar tilslakanir á sóttvarnareglum taka gildi frá og með 10. desember og standa til 12. janúar.
Þar með getur handknattleiksfólk í meistaraflokkum karlar og kvenna í liðum Olísdeildanna hafið æfingar frá og með fimmtudegi. Æfingar innandyra hafa að mestu legið niðri síðan í byrjun október á höfuðborgarsvæðinu. Félög utan þess máttu æfa fram í byrjun nóvember.
Eftir því sem næst verður komist gilda breytingarnar hvorki fyrir ungmennflokka né ná þær til liða í næst efstu deild, þ.e. Grill 66-deilda karla og kvenna. Handbolti.is mun reyna að leita eftir skýrari svörum við því í dag.
Áfram mun ríkja bann við kappleikjum til 12. janúar.