- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Líður ógeðslega vel – þetta var rosalega gaman

- Auglýsing -


„Mér líður ógeðslega vel, þetta var rosalega gaman,“ sagði Lovísa Thompson leikmaður Vals eftir að liðið tryggði sér sæti í úrslitum Evrópubikarkeppninnar í handknattleik kvenna í kvöld með 10 marka sigri á slóvakíska liðinu MSK IUVENTA Michalovce, 30:20, í síðari undanúrslitaleik liðanna á Hlíðarenda. Valur leikur til úrslita við spænska Conservas Orbe Zendal Bm Porrino í tvígang um og eftir miðjan maí.


„Það var svakalegt að ná 10 marka sigri vegna þess að í upphafi leiks vorum við með stressið fram í fingurgóma. En það gekk bara allt upp hjá okkur,“ sagði Lovísa sem undirstrikaði að leikáætlun Vals hafi gengið fullkomlega upp.

„Ég trúi varla að við höfum ná þessum árangri. Við erum að skrifa söguna og það er svo gaman að taka þátt í því,“ sagði Lovísa en Valsliðið er fyrsta íslenska kvennaliðið sem kemst í úrslit í Evrópukeppni félagsliða.

„Takk allir sem komu og studdu við bakið á okkur í dag. Það er svo gaman að spila þegar svona margir mæta. Án þeirra hefðum við ekki komist svona langt.“

Lovísa segir afar mikilvægt fyrir íslenskan kvennahandbolta og yngri iðkendur að lið taki þátt í Evrópukeppni og ekki síður ef þau ná árangri.

„Nú verðum við klára síðasta leikinnn í deildinni á fimmtudaginn, svo kemur smá pása áður en allt fer í gang,“ sagði kampakát Lovísa Thompson og sló saman höndunum.

Lengra viðtal við Lovísu er í myndskeiði hér fyrir ofan.

Andstæðingur Valsliðsins í úrslitaleikjunum verður spænska liðið Conservas Orbe Zendal Bm Porrino. Conservas Orbe Zendal Bm er með bækistöðvar í bænum Porrinu skammt frá Vigo í suðvestur-Galisíu, rétt norður af landamærum Spánar og Portúgal. 
Úrslitaleikirnir verða 10. eða 11. maí og 17. eða 18. maí. Dregið verður á þriðjudaginn hvort liðið byrjar á heimavelli.
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -