Emil Bergholt, línumaður heimsmeistara Danmerkur, hefur lokið leik á Evrópumótinu vegna meiðsla sem hann varð fyrir í stórsigri á Noregi í lokaumferð milliriðils 1 fyrr í vikunni. Leikstjórnandinn Rasmus Lauge kemur hins vegar inn í hópinn fyrir leik Danmerkur gegn Íslandi í undanúrslitum í kvöld.
Bergholt hefur spilað stórt hlutverk, bæði í vörn og sókn, hjá Danmörku á mótinu en Lauge sat hjá þegar Danmörk vann Noreg 38:24 á miðvikudagskvöld.
Þessu skýrði Henrik Kronborg, aðstoðarþjálfari danska landsliðsins, frá er hann ræddi við danska fréttamenn í dag og Hbold.dk greindi frá.
Það þýðir að Lasse Møller, Mads Svane og Frederik Bo Andersen verða að gera sér það að góðu að vera utan hóps hjá Danmörku í kvöld.
Nokkrar af stærstu stjörnum Danmerkur, Mathias Gidsel, Emil Nielsen og Simon Pytlick, eru allar klárar í slaginn.



