Nú þegar árið 2024 hefur gengið í garð óskum við sem stöndum að handbolti.is lesendum og samstarfsaðilum gleði- og gæfuríks árs. Upp er runnið fimmta starfsár handbolta.is sem lagði af stað á göngu sinni um veraldarvefinn í byrjun september 2020 með bjartsýni eitt fárra sem vopn. Ekki veitti af því margt var mótdrægt í upphafi, ekki síst vegna þess ástands sem var í heiminum þegar covid var að taka á sprett á nýjan leik eftir svikalogn mánuðina og vikurnar á undan. Ekkert var um kappleiki mánuðum saman og tekjur af skornum skammti enda handbolti.is lítt þekktari þá en nú.
Vaxið fiskur um hrygg
Þrátt fyrir að á ýmsu hafi gengið á þeim liðlega 1.200 dögum síðan handbolti.is var opnaður hefur honum vaxið fiskur um hrygg. Lesendum hefur fjölgað í tuga prósenta vís ár hvert. Eftir um 50% fleiri lestra og flettingar árið 2022 var e.t.v. of gott að láta sér dreyma um svipað ætti sér stað árið 2023. Sú varð engu að síður raunin. Fréttir handbolta.is voru skoðaðar vel á fjórða milljón sinnum á nýliðnu ári.
Þótt það teljist ekki mikið á mælikvarða stóru fréttamiðlanna þá lítum við sem stöndum á bak við handbolta.is á þetta sem nokkuð góðan árangur og stöndum keik í upphafi nýs árs. Erum við lesendum, auglýsendum og bakhjörlum þakklát.
Ekkert er sjálfgefið
Það er ekkert sjálfgefið að fara að ná athygli fólks nú um stundir og fara úr engum lestri í nokkrar milljónir á 40 mánuðum. Efni vefsins er takmarkað, bundið við eina íþróttagrein. Starfsmenn eru fáir sem hamlar þeim fjölda frétta sem birtast og heldur aftur af fjölda sjónarhorna.
Sumum hefur þótt nóg um
Hófleg íhaldssemi hefur ríkt í fréttaskrifum og framsetningu, svo sumum hefur þótt nóg um. Einnig hefur verið forðast að vera alltaf í efsta stigi í frásögunum eða berja sér um of á brjóst. Það hefur e.t.v. orðið til að þeir sem telja sig betur til þess fallnir hafa á stundum náð meiri athygli. Hluti íhaldsseminnar er m.a. fólgin í að gera sér grein fyrir að nokkuð er um liðið síðan hjólið var fundið upp.
Allt orkar tvímælis
Allt orkar tvímælis þá gert er. Sömu sögu er að segja um það sem er ógert. Umsjónarmaður hefur margoft fengið skömm í hattinn góða og er ekki saklaus af því að hafa stundum svarað í sömu mynt. Hótanir hafa borist um að verði ekki fréttir dregnar til baka muni bkahjarlar hverfa á braut eða að íþróttaferli fólks verði teflt í tvísýnu o.s.frv. Jafnvel hefur hlaupið hundur í mætustu menn vegna staðreynda sem legið hafa á borðinu.
Eitt sinn var gengið svo langt að hóta vefnum málsókn vegna fréttar sem birtist. Þótt hótunin hafi ekki verið dregin til baka er er ósennilegt að af henni verði héðan af.
Síst má gleyma öllum þökkum sem einnig hafa borist og eru fleiri en skammirnar, svo því sé haldið til haga.
Undanrenna er staðgóð
Að baki er enn eitt lærdómsríkt ár hjá handbolta.is þar sem reynt var af eftir mætti að fylgjast grannt með því sem var að gerast í handknattleik utanlands og innan. Úrslitaleikjum Íslandsmótanna og bikarkeppninnar fylgt eftir auk úrslitaleikja í neðri deildunum. Reynt var að gera meira en að fleyta rjómann. Undanrenna getur líka verið staðgóð.
Fjárhagslegir burðir komu í veg fyrir að hægt væri að vera með A-landsliði karla frá upphafi heimsmeistaramótsins í janúar. Mætt var til leiks þegar á leið mótið og ljóst að kostnaður varð viðráðanlegur miðað þær tekjur sem voru fyrir hendi.
Lesendur þyrptust að
Ákveðið var með skömmum fyrirvara í lok júní að fara út til Berlínar og fylgjast með U21 árs landsliði karla kljást um verðlaun á heimsmeistaramóti. Piltarnir stóðu sig frábærlega og unnu bronsverðlaun og lesendur þyrptust að handbolta.is.
Skollaeyrum skellt við
Á sama tíma og stórir auglýsendur skelltu skollaeyrum við beiðni handbolta.is um samstarf. Sumir sögðu engan áhuga vera fyrir handbolta á sumrin. Staðreyndin var hins vegar sú að aðsóknin var slík í lok júní og í byrjun júlí að um er að ræða nokkra af stærstu dögum á stuttu æviskeiði handbolta.is.
Virðing og vegferð
Kvennalandsliðinu var fylgt eftir frá upphafi til enda heimsmeistaramótsins í síðasta mánuði. Ekki kom til álita að spara nokkur hundruð þúsund krónur og fara heim eftir riðlakeppnina þótt „aðeins“ stæði fyrir dyrum að leika um forsetabikarinn. Í augum útgefenda handbolta.is snerist málið um að bera virðingu fyrir liðinu, sem var að taka þátt í heimsmeistaramóti, og þeirra margumtöluðu vegferð sem það er á.
Öllu tjaldað til
Síðustu mánuði hefur verið nurlað saman fyrir þátttöku á Evrópumóti karla sem fram fer með pompi og prakt í Þýskalandi frá 10. til 28. janúar. Handbolti.is verður með tvo menn ytra og fylgir íslenska liðinu frá upphafi til loka mótsins. Auk blaðamanns, sem skröltist á sitt 19. stórmót í handbolta, verður með í för einn færasti íþróttaljósmyndari landsins sem svo sannarlega mun hressa upp á vefinn næstu vikur.
Það er óhætt að hlakka til hlaupársins 2024 þótt áfram verði haldið á braut hóflegrar íhaldssemi á flestum sviðum eins og t.d. þeim að birta stundum alltof langar greinar eins og þessa. Þess utan má deila hvað sé hófleg íhaldssemi. Allt orkar tvímælis þá gert er.
Gleðilegt ár!
Ívar Benediktsson – [email protected]