- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

„Litli og stóri“ vöktu athygli í Árósum 1962!

Leikmenn Fram sem tóku þátt í Evrópuleiknum gegn Skovbakken. Aftasta röð frá vinstri: Ágúst Þór Oddgeirsson, Jón Friðsteinsson, Guðjón Jónsson, Tómas Tómasson, Erlingur Kristjánsson og Ingólfur Óskarsson. Miðröð: Sigurður Einarsson, Karl G. Benediktsson, þjálfari, Hilmar Ólafsson, fyrirliði og Gylfi Jóhannesson. Fremsta röð: Atli Marínósson, Þorgeir Lúðvíksson og Sigurjón Þórarinsson.
- Auglýsing -

​​​​​

​​4. nóvember voru liðin 60 ár síðan Fram var fyrst íslenskra félaga til að taka þátt í Evrópukeppni í flokkaíþróttum. Fram tók þátt í Evrópukeppni meistaraliða í handknattleik 1962-1963 og lék við danska liðið Skovbakken frá Árósum. Þá léku lið aðeins einn leik í fyrstu umferðunum og kom það í hlut Fram að heimsækja Skovbakken.

Á þessum tímamótum  verða leikmennirnir sem fóru til Danmerkur, heiðursgestir á leik Fram og ÍBV í kvöld kl. 18 í hinu glæsilega Íþróttahúsi Fram í Úlfarsárdal, þar sem þeir verða kallaðir fram á gólf og hylltir fyrir leikinn.

Allir leikmenn sem tóku þátt í leiknum gegn Skovbakken, eru á lífi nema aldursforsetinn Hilmar Ólafsson, fyrirliði. 

Þátttaka Fram þótti stórvirki

Þátttaka Fram þótti stórvirki og urðu leikmenn Fram að undirbúa sig fyrir leikinn gegn Skovbakken í Íþróttahúsinu á Keflavíkurflugvelli, en þar var leikvöllur stærri en í Háloglandi í Reykjavík; löglegur keppnisvöllur. Í undirbúningi sínum fóru leikmenn Fram tvisvar í viku til Keflavíkur; rúmlega 120 km leið eftir gamla Krísuvíkurveginum um Vatnleysuströnd og Voga. Einnig var æft í gamla íþróttahúsi Vals að Hlíðarenda.

Framliðið flaug frá Íslandi til Kaupmannahafnar og fór þaðan með ferju yfir til Árósar á Jótlandi.

Töpuðu eftir framlengingu

Framarar voru svo sannarlega óheppnir að slá ekki Skovbakken út úr keppninni. Danirnir náðu knettinum og að jafna 24:24 þegar tíu sek. voru til leiksloka, með marki úr horni, og í framlengingu skoruðu þeir sigurmarkið þegar 20 sek. voru til leiksloka, 28:27.

Sigurður Einarsson skorar mark af línu gegn Skovbakken.

Engir jöfnuðust á við Guðjón og Ingólf

Leikur Fram vakti athygli í Danmörku og fékk Framliðið mikið hrós í dönskum blöðum. Sagt var frá því að Danir ættu enga leikmenn sem jöfnuðust á við Guðjón Jónsson og Ingólf Óskarsson, sem skoruðu níu mörk hvor. Þeir voru kallaðir Bi og Fy (Litli og stóri) – Bivognen og Fyrtarnet. Hin mörkin skoruðu Karl G. Benediktsson 4, Sigurður Einarsson 2, Erlingur Kristjánsson 2 og Ágúst Þór Oddgeirsson, eitt.

Þýddi ekki að taka Framara úr umferð

Danirnir reyndu að taka Guðjón og Ingólf úr umferð, en hættu við það eftir að Ágúst Þór skoraði með miklu þrumuskoti og í næstu sókn gekk markramminn til, þegar skot Ágústar skall á stönginni. Þeir sáu að það þýddi ekkert að taka menn úr umferð, því að sá næsti tæki þá við!

Leikmenn Fram sem tóku þátt í Evrópuleiknum gegn Skovbakken. Aftasta röð frá vinstri: Ágúst Þór Oddgeirsson, Jón Friðsteinsson, Guðjón Jónsson, Tómas Tómasson, Erlingur Kristjánsson og Ingólfur Óskarsson. Miðröð: Sigurður Einarsson, Karl G. Benediktsson, þjálfari, Hilmar Ólafsson, fyrirliði og Gylfi Jóhannesson. Fremsta röð: Atli Marínósson, Þorgeir Lúðvíksson og Sigurjón Þórarinsson.

Fram hefði fengið heimaleik

Ef Fram hefði komist áfram hefði liðið leikið gegn norska liðinu IK Fredensborg frá Ósló. Fram hefði ekki þurft að leika þann leik, því að Norðmennirnir voru búnir að gefa það út að þeir myndu draga lið sitt út úr Evrópukeppninni ef þeir þyrftu að fara til Íslands, en Fram hefði fengið heimaleik með sigri á Skovbakken. Norðmenn töldu sig ekki hafa efni á að fara til Íslands.

Skovbakken fagnaði sigri á Fredensborg í Ósló, 10:9, í 16 liða úrslitum. Danska liðið lék tvo leiki gegn sænska liðinu Heim í 8-liða úrslitum; tapaði í Svíþjóð 17:19, en vann í Árósum 21:14 og samanlagt 38:34.

Fóru í undanúrslit

Skovbakken tapaði fyrir Dinamo Búkarest frá Rúmeníu í undanúrslitum samanlagt 22:28 (Heima 12:14 og úti 10:14).

Dukla Prag varð síðan Evrópumeistari með því að vinna Dinamo Búkarest í framlengdum úrslitaleik í París 15:13, eftir að staðan var jöfn eftir venjulegan leiktíma, 13:13.

Forsíðan á leikskrá Skovbakken – Fram, sem leikmenn liðanna hafa ritað nöfn sín. Eina leikskráin með eiginhandaráritunum sem er til.

Söguleg leikskrá og plakat

Framarar eiga ýmisleg gögn frá leiknum í Árósum, sem Sveinn H. Ragnarsson liðsstjóri, hélt til haga. Eins og auglýsingaplakat, sem er sögulegt. Ýmis gögn um leikinn eru í ramma við hliðina á plakatinu, eins og frásagnir um leikinn í dönskum blöðum, jólakort sem Fram fékk frá Skovbakken.

Erlingur Kristjánsson, leikmaður, kom færandi hendi á dögunum, er hann kom með leikskrá leiksins, sem er mikill dýrgripur vegna þess að allir leikmenn, þjálfarar og forráðamenn liðanna rituðu nöfn sín á hana. Leikskránni hefur nú verið komið fyrir í rammanum sem geymir auglýsingaplakatið. Það var Sveinn sem lét Erling fá leikskránna í veislu eftir leikinn og bað Erling um að sjá um að allir rituðu nöfn sín á skránna, með því að láta hana ganga á milli manna við veisluborðin.

Auglýsingaplakatið á leik Skovbakken og Fram 4. nóvember 1962 í Árósum. Það er næsta víst að ekki eru mörg eintök til.

Leikmenn Fram fá í kvöld minni-plakat af auglýsingunni frá leiknum og ljósrit af forsíðu á leikskránni, ásamt ýmsum upplýsingum.

Þeir leikmenn sem tóku þátt í leiknum voru Ágúst Þór Oddgeirsson, Jón Friðsteinsson, Guðjón Jónsson, Tómas Tómasson, Erlingur Kristjánsson, Ingólfur Óskarsson, Sigurður Einarsson, Karl G. Benediktsson, þjálfari, Hilmar Ólafsson, fyrirliði, Gylfi Jóhannesson, 17 ára nýliði, og markverðirnir Atli Marínósson, Þorgeir Lúðvíksson og Sigurjón Þórarinsson.

Liðsstjóri var Sveinn H. Ragnarsson, fararstjórar voru þeir Birgir Lúðvíksson og Hannes Þ. Sigurðsson. Hannes var aðalfararstjóri og skipulagði ferðina

Eftir Danmerkurferðina var Hannes gerður að heiðursfélaga í Sápufélaginu hf.

Heiðursfélagi í Sápufélaginu hf.

Hannes Þ. Sigurðsson sagði þannig frá: „Þetta er einn mesti heiður sem mér hefur verið sýndur – að vera gerður heiðursfélagi í Sápufélaginu hf., sem var stofnað af leikmönnum Íslandsmeistaraliðs Fram, sem tóku þátt í fyrsta Evrópuleik Íslands í handknattleik. Félagið var stofnað í kringum kaup á sápum, sem leikmenn notuðu í sturtuklefum á Hálogalandi og víðar – eftir æfingar og leiki. Félagið var stofnað til að kaupa sápur, en það bar alltaf nokkuð á því að menn gleymdu sápum og fengu lánaðar sápur og sjampó hjá öðrum. Sápufélagið sá um að sápur væru til staðar fyrir alla.

Hannes Þ. Sigurðsson, fararstjóri og heiðursfélagi Sápufélagsins hf., og Sveinn H. Ragnarsson, liðsstjóri.

Ég var gerður að heiðursfélaga eftir að ég fór til Danmerkur sem fararstjóri – þegar Evrópuleikurinn gegn Skovbakken var leikinn. Og það þó svo að ég hefði aldrei farið í baðherbegi með leikmönnum eftir æfingar og leiki. Mér þótti vænt um þessa vinsemd félagsmanna,“  sagði Hannes, sem var og er eini heiðursfélagi Sápufélagsins.

Hannes fékk skjal um að hann hefði verið gerður heiðursfélagi. Textinn í skjalinu, er þannig: 

Hr. Hannes Þ. Sigurðsson
Við leyfum okkur hér með að tilkynna yður
þá ákvörðun stjórnar Sápufélagsins, að 
sökum hlýhugs yðar og velvilja í garð félagsins
eruð þér gerður að heiðursfélaga vorum.
Öðlizt þér þar með afnotarétt af beztu sápum
félagsins án endurgjalda og hvenær sem þér
kunnið að óska þess, séu birgðir fyrir hendi.

Gjört í desember 1962
Sápufélagið hf.
Sími 1313
Símnefni: LUX.

Á skjalið rita nöfn sín þeir Hilmar Ólafsson, Tómas Tómasson, Ágúst Þór Oddgeirsson, Sveinn H. Ragnarsson, Ingólfur Óskarsson, Gylfi Jóhannesson, Erlingur Kristjánsson, Þorgeir Lúðvíksson, Jón Friðsteinsson, Sigurður Einarsson, Guðjón Jónsson, Karl G. Benediktsson.
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -