Snorri Steinn Guðjónsson þjálfari íslenska karlalandsliðsins kvaðst ekki geta ætlast til meira af sínum mönnum en það sem þeir sýndu í þriggja marka tapi fyrir heimsmeisturum Danmerkur í undanúrslitum Evrópumótsins í Herning í Danmörku í kvöld.
„Það er auðvelt að finna einhverja hluti hér og þar. Kannski vantaði einhvers staðar upp á hjá okkur. Það getur vel verið en mér fannst strákarnir frábærir í dag. Ég veit ekki hvort ég geti beðið um eitthvað meira.
Auðvitað eru atriði hér og þar sem vantar eitthvað upp á en þeir lögðu líf og sál í þetta á móti frábæru liði. Það er erfitt við þá að eiga.
Þeir gerðu það í 60 mínútur og auðvitað hefðu einhverjir hlutir þurft að falla með okkur hér og þar en þeir gerðu það bara eki í dag því miður,“ sagði Snorri Steinn við handbolta.is eftir leikinn.
Herslumuninn vantaði – bronsleikur bíður Íslands á sunnudaginn
Ekkert hissa á frammistöðunni
Landsliðsþjálfarinn kvaðst ekki hissa yfir því að Ísland hafi átt í fullu tré við ógnarsterkt lið Danmerkur í kvöld.
„Þetta er frábært lið. Er þetta ekki bara gæðamerki? Ég er ekkert hissa. Við ætluðum í þennan leik til þess að vinna hann. Við höfðum fulla trú á því og sýndum alveg að við gátum það. En auðvitað svíður það þegar þú tapar svona leik og ert nálægt því að komast í úrslit,“ sagði Snorri Steinn.
Fram undan er leikur gegn Degi Sigurðssyni og lærisveinum hans í Króatíu í leiknum um bronsverðlaunin á sunnudaginn.
„Þetta er ennþá stórmót og það er risa leikur fyrir okkur á sunnudaginn. Við þurfum að reyna að jafna okkur fljótt og ná endurheimt. Við mætum í þann leik og seljum okkur mjög dýrt,“ sagði Snorri Steinn Guðjónsson að lokum við handbolta.is.



