Lovísa Thompson og Þorgils Jón Svölu- Baldursson voru valin bestu leikmenn meistaraflokka Vals í handknattleik í lokahófi flokkanna sem haldið var fyrir helgina. Lið Vals náðu framúrskarandi árangri á keppnistímabilinu. Karlaliðið varð Íslandsmeistari og kvennaliðið hafnaði í öðru sæti eftir að hafa leikið til úrslita við KA/Þór um Íslandsmeistaratitilinn.
Lilja Ágústsdóttir var valin efnilegust í meistaraflokki kvenna og Hulda Dís Þrastardóttir mikilvægust. Einar Þorsteinn Ólafsson var valinn efnilegasti leikmaður í liði Íslandsmeistaranna og Anton Rúnarsson og Alexander Örn Júlíusson voru báðir mikilvægustu leikmenn liðsins.
Veitt voru verðlaun fyrir bestu leikmenn U-liða karla og kvenna sem léku í Grill66-deildini. Ída Margrét Stefánsdóttir og Benedikt Gunnar Óskarsson hrepptu hnossið.
Einnig voru veittar viðurkenningar til leikmanna sem náðu áfangaleikjum fyrir Val á keppnistímabilinu. Auður Ester Gestsdóttir, Agnar Smári Jónsson og Magnús Óli Magnússon léku sína 100. leiki á tímabilinu. Finnur Ingi Stefánsson fékk viðurkenningu fyrir 150 leiki og Alexander Örn Júlíusson, Anton Rúnarsson og Vignir Stefánsson fengu viðurkenningu fyrir að hafa náð 250 leikjum hver.
Guðni Jónsson liðsstjóri var einnig verðlaunaður fyrir 14 ára starf fyrir félagið. Einnig voru sjálfboðaliðar tímabilsins heiðraðir.