Katrine Lunde, ein besta ef ekki besti handknattleiksmarkvörður sögunnar í kvennahandknattleik, var ein þeirra sem var með fyrirlestur fyrir leikmenn Evrópumóts 19 ára landsliða kvenna í Podgorica í morgun. Fyrirlestrarnir eru hluti af verkefni sem EHF hefur staðið fyrir á síðustu Evrópumótum yngri landsliða undir heitinu, Respect Your Talent.
Auk Lunde röbbuðu Ana Gros og Anna Vyakhireva við stúlkurnar en Gros og Vyakhireva eru einhverjar snjöllustu örvhentu skyttur heims um þessar mundir. Þær leika báðar í Frakklandi á næsta keppnistímabili.
Nokkrir leikmenn úr hverju liði eru tilnefndir til þess að mæta og taka við hvatningum og leiðbeiningum frá eldri og reyndari leikmönnum sem segja frá reynslu sinni og svara spurningum.
Ásrún Inga Arnarsdóttir, Ásthildur Þórhallsdóttir, Dagmar Guðrún Pálsdóttir, Guðrún Hekla Traustadóttir og Elísabet Millý Elíasardóttir mættu í morgun úr íslenska landsliðinu. Allar hafa þær verið valdar menn leiksins einu sinni á mótinu.
Sú sigursælasta
Lunde er sigursælasta handknattleikskona sögunnar með 13 gullverðlaun frá Ólympíuleikum, Evrópu- og heimsmeistaramótum með norska landsliðinu auk átta silfur- og bronsverðlauna. Til viðbótar hefur Lunde unnið sjö gullverðlaun í Meistaradeild Evrópu.