„Ég tók snemma ákvörðun um að halda fast við okkar leikstíl í leikjum Evrópudeildarinnar. Bæði vegna þess að ég held að það sé ekki einfalt að skipta á milli leikja auk þess sem mig langar til að sjá hvar við stöndum með okkar handknattleik gagnvart nokkrum af betri félagsliðum Evrópu,“ sagði Snorri Steinn Guðjónsson þjálfari Íslands- og bikarmeistara Vals sem hefja leik í Evrópudeildinni í handknattleik annað kvöld, þriðjudag, með heimaleik gegn ungverska liðinu FTC (Ferencváros) klukkan 18.45 í Origohöllinni á Hlíðarenda.
„Við nálgumst leikinn á morgun algjörlega á okkar forsendum en munum að sjálfsögðu taka tillit til kosta andstæðinga.
Leikstíllinn verður hinsvegar sá sami af okkar hálfu en vissulega er áherslur alltaf eitthvað mismunandi á milli leikja og liða,“ sagði Snorri Steinn sem hefur alla sína sterkustu leikmenn klára í slaginn.
Tryggðu þér aðgöngumiða á viðureign Vals og FTC á morgun. Miðasala á Tix.is.
Mikil eftirvænting
„Andi úrslitakeppninnar svífur yfir vötnum, ég finn það. Spennan er mikil meðal leikmanna. Þeir vilja gera sitt allra besta. Þess vegna er mikilvægt að komið sé að stundinni þegar flautað verður til leiks,“ sagði Snorri Steinn.
Tvíeggjað sverð
„Ég er bara mjög spenntur fyrir að sjá hvað við getum gert ef vel tekst til hjá okkur. Vissulega getur það verið tvíeggjað sverð fyrir okkur að halda fast í okkar leikstíl. Ef hann kostar okkur mörg mistök þá getur illa farið. Ég geri mér grein fyrir því,“ sagði Snorri Steinn sem hefur legið yfir upptökum af liði Ferencváros upp á síðkastið.
Ferencváros er með frábært lið
Snorri Steinn segir Ferencváros vera í næsta þrepi fyrir neðan stórliðin tvö í Ungverjalandi, Veszprém og Pick Szeged.
„Ferencváros hefur tvo mjög öfluga og þekkta leikmenn sem leika með landsliðinu, Máté Lékai og Zsolt Balogh, en fleiri frábærir leikmenn eru með FTC. Til dæmis er tvítug örvhent skytta með Balogh, góðan miðjumann og vinstri skyttu sem er frábær og markverði sem hafa verið viðloðandi ungverska landsliðið. Breiddin er mikil. Ferencváros er með frábært lið sem enginn handknattleiksáhugamaður verður svikinn af því að sjá,“ sagði Snorri Steinn og undirstrikaði að Valur hafi leikið við Balatonfüredi fyrir þremur árum og lent á vegg. Síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar.
Prófraun fyrir íslenska handbolta
„Þátttaka okkar í Evrópudeildinni verður mjög fróðleg og lærdómsrík. Ekki aðeins fyrir okkur Valsmenn heldur einnig íslenskan handknattleik. Mér finnst mikilvægt fyrir handboltann heima að sjá hvar við stöndum. Hvar standa Íslandsmeistararnir og eitt besta lið landsins í samanburði við meistara annarra landa eða næst bestu lið nokkurra bestu handknattleiksþjóða Evrópu? Pressan er á okkur í þessum efnum.
Gæti verið risastór gulrót
Ef frammistaða okkar verður eitthvað gjaldþrot verður það mikið áhyggjuefni fyrir íslenskan handknattleik, ekki bara okkur Valsmenn. Ef við verðum slakir þá verðum við að velta fyrir okkur stöðunni hér á landi. Verði frammistaðan viðunandi ætti það að verða hvatning fyrir okkur, ekki bara Val. Ef það á fyrir Íslandsmeisturum næstu ára að liggja að taka þátt í svona stórri keppni árlega þá erum við komnir með risastóra gulrót fyrir marga unga handboltastráka hér á landi. Það er ekki sjálfgefið að taka þátt í Evrópukeppni,“ segir Snorri Steinn og bætir við að hann finni fyrir stolti og ábyrgð.
Risastórt verkefni
„Ég er stoltur að stýra mínu uppeldisfélagi í jafn stórri alþjóðlegri keppni og Evrópudeildin er og taka þátt í þessu risastóra verkefni. Þetta verður gaman og ég vona að fólk komi og standi við bakið á okkur,“ sagði Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari Íslandsmeistara Vals í handknattleik karla.
Sem fyrr segir hefst leikur Vals og Ferencváros í Origohöllinni klukkan 18.45 á morgun.