Ómar Ingi Magnússon, fyrirliði íslenska landsliðsins og leikmaður Evrópumeistara SC Magdeburg, hefur á yfirstandandi tímabili sem og undanfarin tímabil leikið afskaplega vel fyrir þýska liðið sem svo sannarlega hefur verið eftir tekið.
Sænski miðillinn Handbollskanalen nefnir Ómar Inga sérstaklega í upptalningu sinni á fjórum leikmönnum sem handboltaáhugafólk ætti sérstaklega að fylgjast með á Evrópumótinu í Danmörku, Noregi og Svíþjóð síðar í mánuðinum.
Býr yfir miklum hraða
„Ef þú ert á undan Albin Lagergren í goggunarröðinni ertu góður. Ómar Ingi býr yfir miklum hraða og þrumar boltanum með vinstri hendi í mark andstæðinganna. Oft, að minnsta kosti átta til níu sinnum í hverjum leik.
Gull í Meistaradeildinni (tvisvar), þýsku 1. deildinni, heimsmeistaramóti félagsliða (þrisvar), dönsku úrvalsdeildinni, þýsku bikarkeppninni. Útnefndur besti leikmaður þýsku deildarinnar 2021/22.
Á í harðri samkeppni um að vera stærsti prófíllinn hjá íslenska landsliðinu. Gísli Þorgeir Kristjánsson er nokkurn veginn á sama getustigi. Hann var bestur í þýsku deildinni 2022/23,“ skrifar Handbollskanalen um Ómar Inga í umfjöllun sinni.
Hinir þrír leikmennirnir sem nefndir eru til sögunnar eru Bence Imre, hægri hornamaður THW Kiel og Ungverjalands, Adam Morawski, markvörður Industria Kielce og Póllands, og Leo Prantner, hægri hornamaður Füchse Berlín og Ítalíu.




